Er stefna símafyrirtækjanna Nova og Vodafone í markaðsmálum tákn um nýja tíma.
Er hjólreiðavakningin komin til Íslands og fyrirtæki farin farin að sjá sér kost í því að nota hjólreiðar og reiðhjól í markaðssetningu.
Nova auglýsti eftir heilsuhraustum 20 ára og eldri til þess að hjóla með fólk í sumar og auglýsingar þeirra ganga útá að sýna Björn Jörund sem farþega í hjólavagni sem tekur einhvern sportbílahnakka í nefið. Það er nú ekki verra að geta unnið við það í sumar að hjóla á launum og ef ég hefði haft tækifæri og aðstöðu til hefði ég eflaust sótt mér um.
Vodafone auglýsir svo í dag 400 reiðhjól sem dreift hefur verið um byggðir landsins og eru lánuð frítt útfrá sundlaugum bæjanna. Í fréttinni undir fyrirsögninni Dalvík - Barcelona stendur
"Með verkefninu komast því Akureyri, Akranes, Borgarnes, Dalvík, Egilsstaðir, Grindavík, Húsavík, Ísafjörður, Neskaupsstaður, Reykjanesbær, Sauðárkrókur, Selfoss og Vestmannaeyjar í hóp stórborga á borð við Kaupmannahöfn og Barcelona!"
Fagur boðsskapur
Þetta er fagur boðsskapur og gleður mig sem áhugamann um hjólreiðasamgöngur. Vonandi að fleiri fyrirtæki fari að nýta sér þennan boðsskap til að markaðssetja sig og hvetja til hjólreiða
Með hækkandi bensínverði, aukinni umræðu um hjólreiðar og almennri heilsuvakningu á Íslandi þá virðist sem hjólreiðar séu loksins að fá hljómgrunn sem samgöngutæki og farin að nýtast sem markaðstæki.
Reykjavíkurborg er með áætlun um bætta aðstöðu til hjólreiða í borginni og eftir að hafa skoðað áætlun þeirra bíð ég spenntur eftir að sjá hana fara í framkvæmd. Hún væri gott fyrsta skref.
Akureyrarbær er með áætlun sem ekki hefur verið opinberuð ennþá og ég hef reynt að komast yfir og verður gaman að sjá hvað þeir ætla sér.
Ríkisstjórnin aftur á móti hefur ekki ennþá minnst orði á hjólreiðar þegar kemur að bættum samgöngum og er frekar að hvetja til notkunar annarra orkugjafa í bíla. Ég bíð spenntur eftir að þeir vakni og fari að huga að hjólreiðum sem samgöngumáta.
En það er ekki spurning að með hlýnandi veðurfari á Íslandi og batnandi samgöngum fyrir hjólreiðamenn þá eru hjólreiðar komnar til að vera og ég vill óska Nova og Vodafone til hamingju með þessar nýju markaðsherferðir sínar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.