Stuðningsmótor á reiðhjólið - hvað er í boði

Nú þegar ríkisstjórnin er að tala um skattaívilnanir fyrir farartæki með óhefðbundnum orkugjöfum og eru ekki ennþá tilbúnir að líta á mannvélina sem óhefðbundinn orkugjafa skrapp ég á netið og leitaði leiða til þess að reiðhjólið yrði búið óhefðbundnum orkugjöfum og þetta er það sem ég fann.

Hefðbundið rafmagnshjól

d6ee_1
Hérna má sjá hefðbundið fjallareiðhjól með rafmagnsmótor. Hjólið er að flestu leiti eins og venjulegt reiðhjól nema að bilið frá sætistúpunni að afturdekkinu er aðeins meira en venjulega svo hægt sé að koma rafhlöðunni fyrir á þægilegan hátt. Fyrir vikið er hjólið aðeins lengra en aðrar úrfærslur eru til þar sem rafhlöðunni er t.d. komið fyrir ofan á bögglabera eða inní rammanum þar sem flestir geyma vatnsbrúsana sína.  Að sjálfsögðu er hægt að fá samanbrotin hjól, götuhjól og dömuhjól með rafmagnsmótor.

Rafmagnsuppfærsla á hjólið
bd38_1
Hægt er að versla sér rafmótor uppfærslu og setja á hjólið sitt. í þessari útfærslu þarf að skipta um gjörðina og koma fyrir mótor og rafhlöðu. Þú getur semsé tekið gamla góða hjólið og breytt því í rafmagnshjól og kostar svona uppfærsla yfirleitt um 500 dollara á Ebay.

Stuðningsmótor á framdekkið
2bde_1
Í þessari útfærslu er stuðningsmótor komið fyrir á framdekkinu og það er lítið dekk á mótornum sem styður framdekkið. Ég hugsa að þetta geti verið ágætisviðbót á hjólið en hugsa að það verði full þungt að framan en auðvelt er að koma þessu fyrir og jafnauðvelt að taka þetta af.

Sólardrifið reiðhjól
EV-Sunny
Þessi hjól eru náttúrulega snilld og eru í fjöldaframleiðslu en þetta er sólarknúið reiðhjól. Rafhlaðan er geymd á bögglabera og svo hleður sólin hana á meðan þú hjólar. Það ætti ekki að vera vandamál að komast dagsleið á þessu hjóli yfir sumartímann en myndi kannski ekki henta jafn vel á veturna hér á Íslandi. Sannarlega gott framlag til að verða "grænn" í umferðinni.

Og að lokum loftdrifið reiðhjól
airbike

Svo er það óvenjulegasta en hugsanlega ódýr útfærsla. Þú tekur bara gamla gaskútinn og lætur fylla hann af lofti og notar svo loftdrifið skrúfujárn eða eitthvað sem snýst og setur dekk á það og leggur við afturdekkið. Þar með eru komin með stuðningsmótor. Sé samt ekki alveg hvernig þessu er stjórnað en hugsanlega þarf maður að vera með aðra höndina á krananum á kútnum þegar maður vill stoppa. En skemmtileg hugmynd engu að síður.

Aðrar útfærslur af reiðhjólum með óhefðbundnum orkugjöfum voru yfirleitt eldflaugar eða eitthvað bensíndrifið og uppfyllti ekki grunnskilyrðin að grænum samgöngum hjá mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband