Ég rakst á mann um daginn sem var að fikta eitthvað í hjólinu sínu í Laugardalnum þar sem hann var að fara með barnabörnin sín í smá rúnt eftir stígum borgarinnar. Ég ákvað að stöðva og spyrja hvort ekki væri allt í góðu og hann sagði mér að keðjan dytti alltaf af hjólinu hans þegar hann hjólaði. Þar sem ég er nú yfirleitt með nauðsynlegustu smáverkfæri í töskunni tók ég mér smá tíma og lagaði þetta fyrir hann.
Á meðan ég var að laga þetta fyrir hann þá ákvað ég að spyrja hann hvað hann hefði verið að hjóla lengi enda á glænýju hjóli. Hann sagði mér að hann væri 68 ára gamall og væri að hjóla í fyrsta skipti í 30-40 ár, þeas hann hefði byrjað núna í vor þegar barnabörnin hans komu til aldurs að geta farið að hjóla með honum.
Mér fannst þetta náttúrulega frábært og hélt áfram að fræðast um hvernig hefði gengið í sumar og hann sagði mér að í fyrsta lagi þá væri þetta einu skiptin sem honum þætti hann til jafns við barnabörnin sín sem voru eitthvað í kringum 8 og 12 ára. Þarna skipti aldursmunurinn engu máli því markmiðið væri jú að vera bara úti og njóta þess að vera saman og þvælast milli staða.
Fyrst þegar hann fór að hjóla í vor var hann pínu óöruggur en það fór fljótlega og hann undirstrikaði að ef maður kynni einu sinni að hjóla þá kynni maður það alltaf og mest hefði komið honum á óvart þegar hann áttaði sig á því að hann gat hjólað 15 - 20 km án þess að "steindrepast" eins og hann orðaði það. Honum fannst alveg frábært hvað þetta væri auðvelt og þrekið batnaði með hverri ferðinni.
Hann sagði mér líka að hann væri slæmur í annarri mjöðminni og fyndi ekki fyrir því þegar hann hjólaði og það væri þannig að á hjóli væri hann það yngsta sem honum hefði hann fundið sig vera í 20 ár.´
Ég óskaði honum náttúrulega til hamingju með þessa frábæru upphvötun sína og sagði honum hvað mér þætti frábært að sjá einhvern svona jákvæðan til hjólreiða og hvað þá að byrja aftur orðin svona gamall. Þá brosti hann og leit til mín og sagði "veistu það ungi vinur minn að ef þetta er ekki leiðin til að hafa fjörið á milli fótanna þá veit ég ekki hvað" Ég náttúrulega hló vel og hjólaði svo í burtu en þegar ég kom heim sá ég að hægt er að kaupa boli á netinu með slagorðinu "put the fun between your legs" kannski ég panti mér einn
Athugasemdir
Skemmtileg frásögn, svo er hitt ekki verra að ég hef smá von enn til að verða hjólreiðamanneskja, vantar bara 10 ár í að verða jafngömul og vinur þinn úr Laugardalnum og ég kunni að hjóla þegar ég var ca. 10 ára.
Marta Gunnarsdóttir, 6.7.2008 kl. 23:33
O hvad eg ofunda hann eg thori ekki ad hjola ut af hneuppskurdi fyrir nokkrum arum.
Ásta Björk Solis, 6.7.2008 kl. 23:44
Ásta, það gæti nefninlega vel verið að þú mættir hjóla. Ég er búin að fara í 6 aðgerðir á hnjám, er með ónýta liðþófa og komin með slitgigt. Á erfitt með gang, get ekki staðið kyrr (þá fyllast hnén af vatni) en ég get hjólað. Og er mikið betri í hnjánum eftir að hafa hjólað daglega í nokkra mánuði.
Flott hjá þessum gamla, vona að ég verði jafn hress þegar ég kemst á eftirlaun. Þá ætla ég sko að hjóla með barnabörnunum. Þ.e. ef þau ýta mér þá ekki um í hjólastól. Hei, maður verður þá altént hjólandi.
Og fallegt af þér að stoppa og aðstoða, Vilberg. Allt of fáir sem láta sér annt um náungann.
Hjóla-Hrönn, 7.7.2008 kl. 00:09
Skemmtileg saga. Ekki amalegt að hitta á mann eins og þig ef eitthvað kemur uppá hjá manni.
Landfari, 7.7.2008 kl. 17:36
Takk fyrir frábærar athugasemdir.
Og eigum við hjólreiðamenn ekki að standa saman eins og trukkabílstjórarnir. Ef maður sér 2 trukka mætast þá virðast alltaf menn heilsast með vísifingri af stýrinu.
En auðvitað er málið að bjóða alltaf aðstoð sína þegar maður getur. Með stressinu í Reykjavík er náungakærleikurinn að hverfa hægt og róglega en þegar maður er á hjóli þá er maður bara frjáls og alltaf tími til að gefa aðeins af sér. Enda ólst ég upp við að vera í 7 klukkutíma að keyra milli landshluta því pabbi þurfti að skipta um dekk fyrir alla sem sprungið var á hjá á leiðinni ;)
En varðandi hnéð á þér Ásta þá ætla ég náttúrulega ekki að fullyrða en flestir íþróttamenn sem verða fyrir hnémeiðslum eru látnir í "Recovery" á reiðhjóli. Það eru bara nokkrar reglur sem þarf að fylgja til þess að draga úr álagi á hné en aðalreglan er að hnakkurinn sé nægilega hár til þess að þú réttir 98% úr löppinni þegar þú hjólar, þeas að þú verðir með beina löpp án þess að teygja mjöðmina niður að petalanum í leiðinni og svo er jafn mikilvægt að vera með kjúkuna fyrir aftan stórutánna á miðjum petalanum og þá ætti maður að vera nokkuð áreynslulaus á hné. En almennt eru hjólreiðar taldar besti kosturinn til að styrkja sinar og liði.
Vilberg Helgason, 7.7.2008 kl. 19:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.