Ég var að hlusta á FM957 í dag og þeir voru með góð ráð fyrir bílstjóra fyrir helgina. Fyrst byrjuðu þeir á að tala um að keyra ekki fullur og alla þessa hefðbundnu rullu sem svo sannarlega er aldrei of oft sögð.
En svo kom uppáhaldið mitt sem var hreint ótrúleg og var þegar bílstjórum var bent á að þegar þeir væru á gatnamótum þá þyrftu þeir að passa sig á "minni" og verr sjáanlegum farartækjum í umferðinni. Og þá sagði maðurinn með umfjöllunina þessa setningu sem var sem gull í mín eyru að "ökumenn þurfa að passa sig á öðrum en bílum því það þarf einnig að passa sig á mótorhjólum og hjólreiðamönnum sem koma eftir götunum"
Mér fannst ekki lítið frábært að við hjólreiðamenn skyldum fá að komast á blað sem vegfarendur í útvarpi. Segir kannski mest um hversu lítilvægir við erum að ég skyldi gleðjast þegar ég heyrði hjólreiðamenn nefnda í svona umfjöllun.
Að sama skapi gladdist ég óskaplega þegar ég heyrði tilkynningu til ökumanna léttbifhjóla í dag í útvarpinu um að þeir ættu ekki að vera á göngustígum og sköpuðu hættu fyrir þá sem þar væru.
Ég einmitt bitri færslu um þetta 17. júlí síðastliðin undir fyrirsögninni "Vesðuplágan komin í fossvoginn" Frábært að búið sé að taka eftir þessu og það eigi að fara að gera eitthvað í þessu því þetta er eitthvað sem gengur ekki alveg upp.
En annars vil ég bara óska öllum bæði hjólreiðamönnum og ökumönnum vélknúinna tækja velfarnaðar í umferðinni um verslunarmannahelgina og vonandi að allir lifi hana af.
Athugasemdir
Hvernig er þetta... hjólar þú í öllum veðrum sama hvað?
Róbert Þórhallsson, 1.8.2008 kl. 22:37
Ef ég hjólaði eftir veðri þá væri ég háður því sem siggi stormur segði mér að gera. Ég bara eins og aðrir klæði mig eftir veðri og svo fer ég á hjólið. Rigning, rok, snjókoma og fleira eru engar fyrirstöður. Eins og veðrið er undanfarið þá er ég tildæmis hrifnari af smá golu eða vind frekar en logni því þá losna ég við flugurnar þegar ég hjóla og kosturinn við hjólreiðar eru að þú þarft ekki að setja á heitu miðstöðina þegar þér er kalt þú bara hjólar aðeins hraðar og þá ertu orðinn fínn
Vilberg Helgason, 1.8.2008 kl. 23:34
Hahaha.
Ég kalla þig hörkutól fyrir að láta ekki veðurfarið hérna hafa áhrif á hjólamennskuna. Ég er sjálfur að spá að kaupa mér gott hjól til að koma mér í betra form og auðvitað spara óþarfa bensínkostnað.
Hvað kostar gott hjól ca?
Kunningi minn sem er frekar áhugasamur í þessu sporti mælir sérstaklega með Scott hjólunum, ertu sammála því?
Róbert Þórhallsson, 2.8.2008 kl. 12:11
Sæll Róbert...
Maður er aldrei stoltari af sjálfum sér en þegar maður kemur inn úr einhverju alvöru óveðri eftir að hafa hjólað smá.
En varðandi hjólategundir að þá held ég að gott hjól sé yfirleitt yfir 40.000 kr og svo uppúr.
Það sem mér finnst mikilvægast þegar ég kaupi mér hjól er að stellið passi mér og það er eitthvað sem þú færð góða ráðgjöf í í hjólabúðunum. Og svo vill ég hafa diskabremsur því þær henta mun betur í bleytu og snjó því á venjulegu gjarðarbremsunum þá vill safnast snjór og bleyta dregur úr virkni bremsanna.
Síðan er hitt yfirleitt bara smekksatriði, hversu miklu þú ert tilbúin að eyða í hvaða tegund og týpur af skiptum eru á hjólinu.
Sjálfur er ég mjög hrifinn af Scott og sérstaklega ánægður með persónulega þjónustu sem þú færð í Markinu. En málið er samt að flakka milli búðanna og sjá hvað þeir bjóða. Svo eru líka haustútsölurnar að koma á hjólunum og þá er góður tími til að versla.
Vilberg Helgason, 3.8.2008 kl. 21:35
Þakka frábæra ráðgjöf, þú ert virkikilega öflugur málsvari hjólahreyfinginnar á Íslandi.
Kunningi minn sem ég ræddi um áður á hjól sem kostar yfir 500 kallinn, úr títaníum fiber eða álíka efni. Held að ég láti ca 50 þús kall tæki byrja í bili. :)0
Ég er samt forvitinn:
*Hvað með hálkuna? (Væntanlega þarf maður að gefa sér meiri tíma í vetrarhörkunar)
*Áttu bíl sjálfur?
*Kostir þess að nota alvöru hjólafatnað?
Ég lét slag standa og fékk hjólið hans bróður minns lánað í dag, langaði að mæla út hversu lengi ég er að hjóla í vinnuna í samanburði við bílinn og hvort þetta væri eitthvað sem ég ræð við að gera daglega. Hann notar það voða lítið þannig það var auðfengið. Bý í vesturbænum, vinn í skútuvogi og bróðir minn er í Breiðholtinu. Ákvað að hjóla frá honum heim í vesturbæ meðfram Sæbrautinni.
Ég var innan við 30 mín (!!) að hjóla alla leiðina sem var merkilega greiðfær, og ekki skemmdi fyrir að fá svalandi úðann.. var regnvotur eftir keyrsluna og með bruna í lærum. (Vonandi fæ ég öflugar harðsperrur á morgun!) Ferðin í vinnuna er eitthvað um 15 mínútur, sem er örlítið meira en á bifreið, ætli það muni ekki 2-3 mínútum. Í stað þess fékk frábæra ókeypis líkamsrækt, borga ekkert bensín, góða tónlist í eyrunum og fæ að njóta nátturufegurðar við sjóinn & í Elliðadalnum.
Fékk svo símtal frá Mömmu þegar ég er að keyra í hlaðið heima í vesturbænum hvort það væri áhugi að mæta í mat hjá henni (Breiðholtið aftur). Ég sagði við hana að ég myndi mæta innan 30 mínútna (og að sjálfsögðu hjólaði ég aftur heim til baka).
Hver veit hvenær ég sæki bílinn minn aftur og hvenær aumingja bróðir minn fær áður rykfallið hjólið til baka.
Róbert Þórhallsson, 3.8.2008 kl. 22:25
Þakka hrósið Róbert
50 þúsund krónu hjólið er örugglega líka besti kosturinn. Sérstaklega er þú ætlar að nota það sem farartæki.
Þó það sé gaman að eiga 500 þúsund krónu hjól þá fylgja því nefnilega nokkrir gallar. Þeir sömu og að eiga 20 milljón króna bíl. Þú hefur eflaust tekið eftir því að allir sem eiga rándýrann porche eða ámóta leggja alltaf á ská í 2 bílastæði svo engin opni hurðina sína á þá.
Það sama gildir með dýr hjól. Manni þykjir of vænt um þau oft ;), þeas þú ert stressaður í sundi hvort einhver steli hjólinu þínu. Bara felgurnar á því kosta 100 þúsund kall þannig að þú læsir stellinu, og felgunum föstum þegar þú þarft að stoppa einhvernstaðar sem þýðir að þú þarft 2-3 lása með þér og svo náttúrulega hvarflar ekki að þér að fara að hjóla í saltinu á veturna því þau eykur líkur á ryði.
Þannig að 50 þúsund krónu hjólið er hinn fullkomni gripur ef maður ætlar að nota það til samgangna.
Það var frábært að heyra hvað þú ferð öflugt af stað í þessu. Hjólatúrinn í breiðholtið og að fíla rigninguna. Auk þess sem þú sérð að tíminn sem "glatast" á hjóli er ekki mikill því hann vinnst upp með sparðnaðinum í því að þú sleppur við að fara í ræktina í staðin.
Varðandi Vetrarhörkunar þá eru þær yfirleitt ekki fyrirstaða því ef veðrið er of slæmt fyrir þig þá bara hendirðu hjólinu í strætó og stelst hluta leiðarinnar þannig. En annars ertu að jafnaði í góðum málum á veturna ef þú bara klæðir þig rétt og færð þér nagladekk á hjólið.
Réttur klæðnaður getur verið góður útivistargalli sem andar eða sérhannaður hjólreiðafatnaður. Ég notast við bæði. Á aðsniðna hjólreiðagalla sem ýmist krefjast þess að ég haldi sjálfur á mér hita en hleypa rakanum út og taka ekki inn raka þó blautt sé og veita á móti litla vindmótstöðu sem getur munað nokkuð um þegar þú ert að hjóla í mótvind. Svo á ég líka ófóðraðar skíðabuxur sem ég klæði mig yfir gallabuxurnar eða hvað sem er þegar ég þarf að koma ágætlega fyrir eða hef ekki tækifæri til að skipta um föt þegar ég kem á staðinn. Það sem þarf að passa er að gera vetrarhjólreiðar ekki of flóknar með of flottum hjólagalla sem passar hvergi nema á hjólinu :).
Ef það verður hálftímafyrirhöfn að taka sig til fyrir smá hjólreiðar í skóla eða vinnu þá nennir maður því ekki þannig að það er bara að finna sér hentuga lausn og 66°kuldagalli getur verið hentug lausn ef maður svitnar ekki of mikið á leið til vinnu í honum. Það er bara að finna réttu línuna í þessu öllu saman og prófa sig áfram en byrja samt að skoða það sem maður á fyrir svo kostnaður fari ekki í vitleysu þegar farið er af stað.
Varðandi notkun á nagladekkjum þá ertu öruggari á nagladekkjum í hálku heldur en á gönguskóm því þú rennur aldrei til í hálkunni né snjónnum nema það séu misháir klakabunkar sem þú ert að hjóla yfir og þú myndir lenda í sömu vandamálum þó það væri möl að sumri. Ég er með tvenns konar nagladekk á hjólunum mínum á veturna þar sem ég er með mjó dekk á öðru og breið á hinu. Bæði virðast henta vel við þær aðstæður sem maður lendir í hérna innan borgarmarka.
Varðandi hvort ég á bíl þá er svarið já. Ég nota hann lítið og er búin að vera með hann á sölu síðan í Janúar og stefni á hjóllausan líffstíl og reiknast svo til að ég spari mér 42.000 í afborganir á mánuði (voru 34 þúsund þegar ég keypti) svo fór ég með 500 kall af bensíni á dag lágmark þar sem ég fer 15 km til vinnu á hverjum degi sem er 15.000 kall og svo kosta tryggingarnar af bílnum um 6000 á mánuði sem gerir 63 þúsund í lágmark á mánuði og ég get samkvæmt því keypt mér 1 hjól á mánuði fyrir það :)
Að sama skapi get ég tekið mér bílaleigubíl allmarga daga á mánuði fyrir þennan pening ef ég nauðsynlega þarf.
Annars er gaman að fara inná heimasíðuna hjá Erninum www.orninn.is og skoða þar vagna og líta sérstaklega á bob yak sem er tengivagn sem flytur allt sem maður þarf með sér allt árið uk kring.
Og endilega haltu áfram að hjóla og ef þú hefur virkilega gaman að þessu getur þú litið á æfingu hjá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur og hjólað með þeim á einhver skipti í viku. Það er virkilega gaman og menn af öllu kaliberi sem þarna koma saman og athuga hvernig þeir fíla þetta. Þegar ég prófaði fyrst var ég 120 kg eða fyrir 30 kílóum síðan og það gekk vel.
Vilberg Helgason, 4.8.2008 kl. 22:46
Takk fyrir góðar ráðleggingar.
Ég hlakka til að kaupa mér gott hjól en síðan ég skrifaði síðast hérna þá hef ég varla snert bílinn. Fæ góða ráðgjöf hjá hjólafróðum kunningja mínum sem ég minntist á áður, ég held meira segja að þú kannist við kauða... hann heitir Sigmundur.
Róbert Þórhallsson, 6.8.2008 kl. 23:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.