Þann 20. maí síðastliðinn voru stofnuð samtök á netinu. Nánar tiltekið á Facebook sem er orðin vinsælasta afdrep netverja nútildags.
Þessi samtök eru fyrir fólk með sameiginlegan áhuga á því að gera bíllausan lífsstíl að vænlegri kost en nú er.
Samtökin stækkuðu hratt og á aðeins tveimur og hálfum mánuði náði skráður fjöldi 1000 manns sem er ótrúlega gott.
Að mínu mati er þarna komin mjög þarfur hópur af fólki til að berjast fyrir málefnum sem margir halda að séu einungis fyrir örfáa sérvitringa sem hafa ekki efni á bíl en svo er ekki. Fjöldi skráninga sýnir hversu stór hópur fólks getur hugsað sér að tileinka sér þennan lífsstíl og ekki skal gleyma því að skráningarnar eru einungis komnar á Facebook vefnum og hlutfall fólks á Facebook er ekki mjög hátt á Íslandi, nema í ákveðnum aldurshópum.
En aðalmálið er að í kvöld, miðvikudaginn 20. ágúst er undirbúningsfundur um formlega stofnun samtakana á efrihæðinni á Kaffi Sólon. Fundurinn hefst klukkan 20:30 og er fyrir alla þá sem vilja leggja hönd á plóginn við stofnun formlegra samtaka.
Að sjálfsögðu ættu allir að mæta sem hafa áhuga á þessu málefni og hafa eitthvað til málanna að leggja.
Hér fylgir svo textinn sem finna má á forsíðu samtakanna á Facebook.com:
"
Samtök um bíllausan lífsstíl er hópur fólks sem hefur að sameiginlegu áhugamáli að vinna að því að gera bíllausan lífsstíl á höfuðborgarsvæðinu að vænlegri kosti en nú er Tilgangurinn er margþættur, allt frá því að hafa jákvæð áhrif á nærumhverfið og draga úr útblástursmengun og yfir það að skapa líflegra og mannvænna borgarumhverfi. Í hópnum er fólk sem bæði lifir bíllausum lífsstíl og þeir sem gjarnan vildu gera það, ef aðstæður til þess væru betri. Hópurinn er þverpólitískur, og leggur því meiri áherslu á að berjast fyrir réttindum þeirra er kjósa sér bíllausan lífsstíl fremur en sértækum og hugsanlega umdeilanlegum lausnum. Hópurinn mun því berjast fyrir eftirfarandi atriðum: að borin sé virðing fyrir almannarými á borð við gangstéttir og torg, og að sektir fyrir ólöglega lögðum faratækjum séu sambærilegar á við það sem gerist í nágrannaborgum og að sektað sé allan tíma sólarhringsins, að gætt þess verði að stofnæðar trufli sem minnst nærliggjandi byggð, að draga úr niðurgreiðslum til handa bílandi á formi gjaldfrjálsra bílastæða við stofnanir, verslanir og fyrirtæki, óbeinnar gjaldtöku af umferðarmannvirkjum og hverju því sem dregur úr samkeppnishæfni annarra valkosta við einkabílinn, að hvetja til þess að lagðir séu göngustígar og hjólabrautir með sambærilegum metnaði og götur fyrir bíla, að umferðaræðar verði skipulagðar sem breiðstræti ekki síður en hraðbrautir þar sem við á, að almenningssamgöngur fái sérakreinar á stofnæðum þar sem hætta er á biðraðamyndun og töfum, að lögð verði enn meiri áhersla á skjólmyndun með trjágróðri en nú er. Hópurinn mun einnig kynna kosti þess að lifa bíllausum lífsstíl fyrir þá sem ekki gera það í dag, hvaða áhrif það hefur á líf þess og nærumhverfi og hvetja fólk til að breyta um lífsstíl eftir fremsta megni." |
Flokkur: Bloggar | 20.8.2008 | 11:12 (breytt kl. 11:15) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.