Það er svolítið athyglisvert að núna á sama tíma og verið er að hvetja til þess að foreldrar keyri börnin sín EKKI til skóla er verið að takmarka aðgang barna að sumum skólum á reiðhjólum.
Já eins undarlegt og það er þá eru skólar í Reykjavík sem banna börnum upp að 10 ára aldri að koma á reiðhjólum í skólann. Jafnvel skólar sem búa við einstaklega góðar aðstæður til hjólreiða til skóla og svo aðrir sem eru í mikilli umferðarbyggð.
En af hverju er verið að banna börnum að koma á hjólum á meðan verið er að hvetja þau til að koma gangandi. Sum börn búa jú í 15 - 20 mín göngufæri frá skóla en einungis 7 mín í hjólafæri og með því móti næst meiri tími með foreldrum og minna stress á morgnana.
Ég verð bara að viðurkenna að ég þyrfti virkilega á einhverri fræðslu að halda sem gæti réttlætt að börn eigi ekki að hjóla í skólann... Ég meina, hver eru rökin með ?... Jú börn læra að höndla umferð, þroskast, ná samhæfingu og stuðla að betri heilsu með hjólreiðum.
Rökin á móti eru, barnið mitt er í hættu í umferðinni og kann ekki réttu leiðirnar og svo framvegis en vandamálið er oft að foreldrar gefa sér hreinlega ekki tíma til að labba einu sinni með barninu sínu til skóla meðan það hjólar og kenna því hvað skal varast og hvernig skal bera sig að.
Er ekki kominn tími til að allir og þá meina ég ÖLL börn fái rétt til að hjóla til skóla bæði frá skólayfirvöldum sem standa í vegi þeirra og svo foreldra sem hafa ekki tíma til að kenna börnum hvernig bera sig skal á leiðinni
Ég ætla bara að undirstrika fyrr færslu mín sem var undir fyrirsögninni "Hvað um hjólað í skólann vikuna" að það á að hvetja börn til þess að ferðast á reiðhjólum og sérstaklega hvetja þau til að fara í skólann á þeim á meðan veður leyfir.
Athugasemdir
Ég prófaði að senda inn formlega fyrirspurn til ÍTR þegar mér bárust þau skilaboð að barnið mitt gæti ekki komið á hjóli í frístundaheimilið. Ég fékk auðvitað aldrei svar við þeirri fyrirspurn.
Hrafnhildur (IP-tala skráð) 10.9.2008 kl. 14:38
Þarna er verið að banna fólki að hjóla vegna þess að bílarnir hafa skapað svo mikla hættu.
Hvað hefði fólki fundist ef reyklausum hefði verið bannað að koma inn á staði þar sem reykt var vegna þess að þeir gætu orðið fyrir heilsutjóni, í stað þess að banna reykingar eða búa til sérstök reykingasvæði?
Er ekki nær að búa þannig um hnútana að fólk geti búið sæmilega hættulaust í sínu eigin hverfi með börnin sín?
Ég hef ekki heyrt svona mikinn hálfvitaskap síðan amerískt fylki reyndi að lögleiða að talan pí væri 3.
Kári Harðarson, 22.9.2008 kl. 07:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.