Mikið er óskaplega gaman að fara út á hjólinu á morgnana eða milli 16 og 18 á daginn og það er vart þverfótað eða þverhjólað fyrir hjólreiðamönnum.
Það skemmtilega er að það er eins og allir séu að hjóla, konur í pilsum með krullur í hárinu og á háhæla skóm jafnt við sportlega klædda hjólreiðamenn af báðum kynjum. Þetta er næstum eins og maður sé komin til Danmerkur að sjá þennan fjölda sem var á stígunum í gær.
Öngþveiti á stígum
Það er samt svolítið sérkennilegt að þegar fjöldinn er orðin svona mikill skapast ákveðið öngþveiti á stígunum og fólk er í hálfgerðum vandræðum að mætast og fara framúr. Ég sem fer nokkuð hratt yfir var óvenjulengi að komast að heiman og niður í bæ miðað við á venjulegum degi.
Draumaveröld hjólreiðamannsins
Ef við myndum hugsa okkur draumaveröld hjólreiðamannsins á íslandi þá væru stígar í hvora átt þar sem mest er hjólað og gangandi fólki haldið á göngustígum en hjólreiðamönnum á þar til gerðum hjólreiðastígum. Hægt væri að komast framúr án vandræða og líka væri hægt að mæta foreldrinu með 5 ára barnið sitt án þess að óttast að barnið sveigji fyrir mann.
Blöndun gangandi og hjólandi vegfarenda
Það er nefnilega þónokkur hætta á stígum eins og í fossvoginum og við nauthólsvík að maður veit ekki alveg hvar maður hefur umferðina á móti. Samt er mesti óvissuhlutinn við að hjóla þarna fólk með hunda í svona útdraganlegum böndum. Það hefur nefnilega komið fyrir mig oftar en einu sinni að þegar ég kem á hjólinu mínu þá hleypur hundurinn yfir stíginn og bandið er á milli gangandi vegfarandans og hundsins og ég með enga flóttaleið. Ég hef hingað til bjargast en það er verra þegar ég er að hjóla með 6 ára strákinn minn sem hefur ekki sömu forsjárhyggju né athyglisgáfu þegar kemur að því að takast á við svona. Kæmi mér ekki á óvart þó það yrði 2 - 3 hundum færra í borginni eftir að hjólað í vinnuna líkur.
Svo er það nefnilega eitt sem er vandamál hjólreiðamanna sem eru útum allar trissur, þeir hafa engan rétt á göngustígunum. Þrátt fyrir að stígum sé skipt í 2/3 gangandi og 1/3 hjólandi þá er þetta flokkað sem göngustígar og því hafa gangandi vegfarendur fullann rétt á þessum stígum og ber hjólreiðamönnum að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda. Að sama skapi erum við ekkert sérlega velkomin á götunum og því hægar sem við hjólum því óvelkomnari erum við þannig að uppi sitja allir þessir hjólreiðamenn með það að þeir eru forgangslausir á stígum en öruggari en hafa fullann rétt á við bíl á götum en ekkert öryggi.
Hjólið er ökutæki
John nokkur Franklin kom í tilefni af samgönguviku til íslands í september í fyrra og kenndi "öruggar" hjólreiðar sem byggja á því að hjólreiðamaðurinn á að taka sér stöðu bíls og hjóla í umferðinni sem slíkur. Hjóla á miðri akgreininni sem hann er á svo hann sé sýnilegur og hegða sér á allann hátt eins og bílstjóri ökutækis. Þetta hef ég stundað þónokkuð lengi og gengur ágætlega enda nokkuð vanur hjóli og held góðum hraða. Samt loðir það við að bílstjórar vilja ekki hafa mig þarna og fara óþægilega nálægt mér þegar þeir fara framúr eða hreinlega keyra í rassgatinu á mér og flauta.
Yfirvaldið stuðli að meira öryggi
Eðlilegt framhald af þessarri hjólreiðavakningu væri að borgaryfirvöld og ríkisstjórnin myndu setja peninga í að tryggja öryggi og aðstöðu hjólreiðamanna frekar en að bora öll þessi göng og styrkja vegsemd bílaumferðar. Hjólreiðamönnum sem hjóla allt árið fer fjölgandi og þar sem það stefnir í að bensínverð muni allt að tvöfaldast á næstu 2 árum og með hlýnandi jörð er alveg á hreinu að fólki á reiðhjólum í umferðinni mun fjölga á næstu árum og það mun gerast hratt og þá er mikilvægt að vera undirbúin fyrir þessa tilvonandi sprengju.
En mig langar að óska aðstandendum Hjólað í vinnuna til hamingju fyrir frábært framtak og fyrir að stuðla að aukinni hjólreiðamenningu á íslandi.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.