Ég var ótrúlega hrifinn af því að sjá nýtt "slógan" Fjallahjólaklúbbsins á glænýrri vefsíðu þeirra "Fyrir alla sem nota reiðhjól sem samgöngutæki". Þetta er einmitt það sem vantaði í vefflóruna á íslandi, að stefnan væri sett á hjólreiðar sem samgöngutæki.
Flestir hugsa um hjólreiðar sem sunnudagshreyfinguna eða smá helgarsport. Það er meira að segja til hugtak á ensku yfir fólk sem stundar svokallaðar helgarhjólreiðar, weekend warriors.
Ég var lengi vel svona "weekend warrior" og naut þess og kom reglulega stoltur heim yfir að hafa rennt nokkra kílómetra á hjólinu mínu. En eftir því sem á leið fór ég að átta mig á að hjólreiðar eru ekki bara stundargaman eða líkamsrækt. Hjólreiðar eru góður möguleiki sem samgöngumáti.
Sjálfur bý ég í grafarholti sem er þónokkuð langt frá miðbæ Reykjavíkur eða um 13 km eftir stígakerfi borgarinnar og þónokkuð styttra ef ég hjóla eftir stofngötum eins og vesturlandsveg og miklubraut.
Ég uppgvötaði eins og margir hjólreiðar sem samgöngumáta í hinu frábæra verkefni borgarinnar, Hjólað í vinnuna og hef síðan nýtt mér reiðhjólið til samgangna þegar það hefur hentað. Ég á bíl og ferðast á honum ennþá svosem með fjölskylduna í Smáralind og flest sem ég þarf að fara með fjölskylduna.
Sjálfur fer ég þó flestra minna ferða á reiðhjóli yfir daginn, í bankann, í vinnu og eiginlega allar skreppur innan ákveðins radíus. Þetta sparar mér þónokkra fjármuni í hverjum mánuði og mér reiknaðist svo til um daginn að það kostaði mig ca. 400-500 kr að keyra niður í miðbæ úr grafarholti og heim. En þegar ég fer það á reiðhjóli þá kostar það mig í mesta lagi þónokkrar hitaeiningar.
Ég byrjaði að hjóla fyrir um 3 árum síðan að alvöru og hef síðan misst allmörg kíló og náð alveg undraverðum árangri í almennri heilsu. Ég er með stöðugan blóðþrýsting sem ég var ekki með, ég er með þrek vel yfir meðallagi fyrir 35 ára karlmann og ég fæ bestu mögulegu sálfræðiþjónustu þegar ég er á reiðhjólinu því frelsið og ánægjan af því að hjóla er alveg ótrúleg.
Þegar ég les erlendar greinar um hið svokallaða frelsi sem fæst í því að hjóla þá get ég svo sannarlega tekið undir það og vil hvetja flesta til að hjóla sem mest.
Á næstunni ætla ég að birta pistla á blogginu mínu um mismunandi gerðir reiðhjóla og ábendingar við val á hjóli auk þess sem ég ætla að rita nokkra pistla um hvernig maður á að bera sig að við að hjóla á götum borgarinnar.
Að lokum við ég fara aftur að upphafi greinarinnar og hvetja fólk til að lesa og fylgjast með nýrri og glæsilegri heimasíðu fjallahjólaklúbbsins www.ifhk.is.
Þar undir er einnig að finna skemmtilega umræðusíðu þar sem hægt er að bera fram spurningar um hjólreiðar og þær sem samgöngumáta og ég efast ekki um að þar munu sérfræðingar klúbbsins leggja sig fram um að veita sem best svör við hverju sem þú villt vita.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.