Fyrir flest okkur er þannig að ef við veikjumst alvarlega eða slösumst þá hringjum við bara í 112 eftir sjúkrabíl eða látum einhvern skutla okkur á sjúkrahús. En þetta er ekki svona auðvelt allsstaðar og oft mun alvarlegra ástand ef eitthvað kemur uppá því það getur verið langt á sjúkrastofnanir og ekki miklar líkur á því að einhver sem fólk þekkir eigi bíl eða þá að það sé almennt einhver sjúkrabíll til á svæðinu.
Þessar aðstæður eru ekki óalgengar í Namibíu þar sem heilbrigðisþjónusta er af skornum skammti þrátt fyrir brýna þörf eins og í mörgum Afríkulöndum.
Í nýlegri úttekt á tengingu milli heilsugæslu og samgangna hefur komið í ljós að fólk á erfitt með að komast til læknis þegar eitthvað bjátar á eða að komast í áður pantaða tíma á sjúkrastofnunum vegna skorts á samgöngum. Og þegar neyðin er mest þarf það oft að eyða meirihluta tekna sinna sem verða sjaldan meira en 500 krónur á mánuði í sjúkraflutninga eða almenningssamgöngur til að komast á staðinn. Þetta gerir að það verður oft lítið eftir til þess að eiga fyrir mat.
Til að sporna við kostnaði og auka möguleika fólks á að komast á sjúkrastofnanir hófu samtökin BEN Namibia (Bicycle Emergency Network Namibia) að framleiða reiðhjól til sjúkraflutninga. En sjúkrahjólin eru í raun börur á hjólum sem hægt er að festa við venjuleg reiðhjól svo hægt sé að koma veiku fólki og óléttum konum undir læknishendur.
Í löndum í Afríku sem tekið hafa upp sjúkraflutninga reiðhjól hefur mátt mæla lægri dánartíðni bæði nýbura og mæðra við fæðingar.
BEN Namibia eru þegar komnir með 54 reiðhjól til sjúkraflutninga og stefnan er að halda framleiðslunni áfram í verksmiðju þeirra í Windhoek, höfuðborg Namibiu. Hjólunum er dreift til góðgerðarsamtaka sem taka við hjólunum og þjálfa upp sjálfboðaliða í sjúkraflutningana.
Reiðhjólin eru samt ekki hugsuð til þess að leysa af sjúkrabíla heldur einungis til þess að brúa það bil sem er til staðar sökum þess að fáir sjúkrabílar eru til í landinu og oft símalaust og erfitt að kalla til aðstoð ef hana vantar. Því er stefnan að sjúkraflutningahjólin verði til víðsvegar um landið og því alltaf stutt í næsta hjól þegar á þarf að halda.
Ekkert bendir til þess að sjúkrabílum muni fjölga og því mun sjúkraflutningareiðhjólið eiga stórann sess í sjúkraflutningum næstu árin.
Hægt er að fræðast meira um sjúkraflutningahjólin á http://benbikes.org.za/namibia/
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.