Það var ánægjulegt að sjá heila opnu tileinkaða umræðu um samgöngumál hjólreiðamanna í Reykjavík í dag. Ég hvet náttúrulega alla til að lesa hana enda margt sem kemur þarna fram.
Rætt er við Þá Pétur Þór hjá Fjallahjólaklúbbnum og Magnús Bergsson hjá Landssamtökum hjólreiðamanna. Inntak greinarinnar er í raun að fólk eigi að hjóla götunum ekki á gangstígum. Það er nefnilega hárrétt en til þess að hjóla á götunni þarf maður að kunna nokkur grunnatriði.
Flestir sem ég sé hjóla á götunni hjóla alveg úti í kanti hægra megin og bílar þjóta hjá og taka oft lítið tillit til þeirra. Ökumenn setja öryggið alfarið í hendur hjólreiðamannsins og taka því lítið tillit til hans og treysta á að hann hjóli beint og ekkert muni koma uppá.
Óöryggi bílstjóra er mikilvægt
Málið er samt það að til að tryggja eigin öryggi þarf að vekja upp óöryggi hjá bílstjóranum og sjá til þess að hann taki tillit til þín. Það fyrsta sem maður þarf að gera er að vera sýnilegur. Sýnilegur hjólreiðamaður er í mun betri málum. Hjólreiðamaður er ekki sýnilegur úti í kanti í mikilli umferð.
Tilraun Bohmte í þýskalandi
Besta dæmið um að vekja upp óöryggi er náttúrulega tilraun sem Bæjaryfirvöld í Bohmte í Þýskalandi gerðu fyrir um ári síðan. Þeir tóku eina 300 metra götu þar sem 47 slys höfðu orðið á einu ári og tóku burtu alla gangstíga, sebrabrautir, hjólastíga og umferðarmerkingar og eftir varð bara gata með varúð til hægri reglu fyrir alla. Tilgangurinn var að vekja upp óöryggi umferðarinnar og gera fólk eftirtektarsamt og meðvitað um umferð í kringum sig. Þessi tilraun er búin að heppnast frábærlega og slysum fækkað mjög. Enda eiga allir sama rétt á malbikinu þar sem hjólandi, gangandi og keyrandi umferð er blandað í einn graut.
Að taka ríkjandi stöðu á veginum
En þegar verið er að hjóla á götu þarf að passa eftirfarandi. Ef hjólað er á götu þar sem bílar leggja í kantinum eins og t.d. Hverfisgötu þarf að passa að hjóla aldrei í línunni þar sem hurðir geta opnast útá götuna. Einnig er mikilvægt að þegar þú ætlar að beygja til hægri eða vinstri að taka fyrst ríkjandi stöðu á veginum. Það er gert þannig að þú ferð útá miðja akreinina þannig að umferð fyrir aftan þig þurfi að stoppa fyrir aftan þig og geri ekki keyrt samhliða þér í beygjunni. Algengustu slysin verða yfirleitt í hægri beygju þegar bíll þrengir að hjólreiðamanni með því að keyra samhliða honum í beygjunni.
Gísli Marteinn hjólar á miðri akreininni í Frakklandi
Í opnunni í fréttablaðinu í dag er talað við Gísla Martein um þessi mál og svo skemmtilega vildi til að hann er í sumarfríi í Frakklandi og að hjóla með fjölskylduna. Hann útskýrði fyrir blaðamanni að þar hjólaði hann á miðri akreininni sinni og börnin hans hægra megin við hann. Hann sagði að hann hagaði sér eins og bíll í umferðinni og þannig væri hann öruggur.
Þetta er akkúrat málið. Til þess að hjólreiðamaður sé öruggur þarf hann að haga sér eins og bíll og hjóla eftir reglum umferðarinnar.
Flokkur: Lífstíll | 28.6.2008 | 21:06 (breytt kl. 21:07) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.