Það vantaði ekki spennuna og tilhlökkun í þátttakendurna sem mættu til að taka þátt í 13. Bláalónsþraut, Hjólreiðafélags Reykjavíkur í morgun. Eftir undanfarna rigningardaga vissu keppendur ekki hvaða verðrum von var á á leiðinni en mættu samt galvaskir með keppnisskapið og viljann að verki fyrir ræsingu þrautarinnar sem fór fram klukkan 10 í morgun.
Mikill fjöldi lagði af stað eftir Strandgötu í Hafnarfirði
Það lögðu um 120 þátttakendur af stað í 11° hita og sjö metra suðaustanvind. Þrautin hófst þannig að allir voru ræstir samtímis og hópurinn hélst nokkuð saman fyrstu kílómetrana en fljótlega fór að togna vel á fyrstu og síðustu mönnum. Framanað fór leiðin að mestu fram á malbiki og nýttu keppendur sér það til þess að halda sem bestum hraða og vinna upp sem mestan tíma fyrir djúpavatnsleiðina sem var þónokkuð torfarnari. Gróf möl og ágætispollar drógu úr hraða þátttakanda en allt gekk vel og allir skiluðu sér í mark vel skítugir og sáttir.
Það var ekki alltaf jafn þurrt á leiðinni
Þegar komið var í mark fengu þátttakendur sér vel að borða af kjötsúpu, ávöxtum og ýmsum kræsingum sem í boði voru. Eftir að hafa kýlt út vömbina drifu allir sig í lónið og var góð stemming á meðan beðið var eftir verðlaunaafhendingu. Ekki kæmi á óvart þó einhverjir hefðu tekið aðeins við sér því sól og 14° hiti var komin þegar komið var í lónið.
Sú nýjung var í þrautinni í ár að hægt var að skrá lið í firmakeppni og tóku 9 fyrirtæki þátt og sigraði lið Dohopmeð þónokkrum yfirburðum. Reglurnar í firmakeppninni eru þannig að 4 - 5 eru saman í liði og er samanlagður tími þriggja fyrstu manna í liðinu tekinn saman og hjóluðu þeir samtals á 6 klukkustundum 16 mínútum og 21 sekúndu eða á um 35 mínútum betri tíma en næsta lið.
Lið Dohop sem sigraði í firmakeppninni
Sigurvegari Bláalónsþrautarinnar í opnum flokki karla var Hafsteinn Ægir Geirsson og í opnum flokki kvenna var það María Ögn Guðmundsdóttir sem vann sigur úr bítum.
Allar frekari upplýsingar um úrslit og myndir úr mótinu er að finna á heimasíðu Hjólreiðafélags Reykjavíkur www.hfr.is
Myndir teknar af Alberti Jakobssyni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.