Ég er einn af þessum sem var alltaf á leið í ræktina. Hafði alveg áhuga á því að fara og lyfta lóðum og styrkja mig aðeins. Ég hafði reyndar gert það reglulega í gegnum tíðina að fara og kaupa mér kort í ræktina, jafnvel binda mig í heilt ár og fá því á kostakjörum árskortið og svo mætt bara fyrsta mánuðinn því ég uppgvöta alltaf hvað mér leiðist að hreyfa mig innanhúss.
Ok ég er ekki alveg að segja satt með innanhúss því það er alltaf gaman að komast í góðann bolta, hvort sem er körfu eða fót í góðra manna hóp. En að vera inni í svita- og eða svitalygtareyða lygt að gera æfingar á sveittum tækjum og handföngum finnst mér aldrei jafn geðslegt og ég sé það fyrir mér áður en ég mæti.
Það er ein af ástæðunum fyrir því að ég fór að hjóla, reyndar ætlaði ég upphaflega að byrja að hlaupa úti en það hentaði mér ekki þar sem bæði var ég of þungur og svo var ég með einhverjar hrufur undir vinstri hnéskelinni sem ollu mér alltaf óþægindum.
En ég hljóp samt í nokkra daga. Í upphafi var ég algjörlega þreklaus og þurfti að hlaupa og ganga til skiptis og svo jókst alltaf hversu meiru ég gat hlaupið en sökum hnésins á mér þurfti ég að hætta og gerði ekkert í smá tíma á eftir.
En eftir að hafa ekkert hreyft mig í nokkrar vikur og hafa þyngst lítillega ákvað ég að nú væri komin draumalausnin fyrir mig. Ég hefði jú alltaf haft gaman að því að hjóla en aldrei virkilega litið á hjólreiðar sem íþrótt eða eitthvað sem maður gæti brennt hitaeiningum og komið sér í form við, hjólreiðar höfðu jú alltaf hentað vel til að skreppa útí búð eða sem fjölskyldusport þar sem allir hjóluðu á hraða minnsta fjölskyldumeðlimarins.
Ég fór útí búð og keypti mér ódýrt og sæmilegt reiðhjól, kostaði 25.000 kall ef ég man rétt á haustútsölu og fór af stað. Fyrst hjólaði ég bara lítinn hring og tók alltaf tímann á mér. Síðan fór ég heim og náði í bílinn til að mæla hversu langt ég hjólaði (þar fóru umhverfissjónarmiðin fyrir lítið). En ég hélt áfram og hjólaði alltaf meira og meira og á endanum fór ég að prófa að fara í vinnuna á hjólinu og svo var alltíeinu fyrsti veturinn minn kominn í höfn. Ég hafði ekki hugmynd um að hægt væri að kaupa einhverja dýra og flotta hjólagalla og notaðist bara við þau föt og þá skó sem ég átti og fór ekki einu sinni og fékk mér nagladekk (þó það hefði verið ráðlegra).
Svona fór ég í gegnum fyrsta veturinn minn og allt sem ég hjólaði með var Ipod, hjálmur og ódýrt ljós að framan og aftan og svo sá fatnaður sem ég átti fyrir.
Síðan þarna hefur sú hugmynd að ég þurfi að fá mér kort í líkamsræktarstöð ekki endst lengi í hausnum á mér og ég ekki látið af því verða enda ánægjan við að hjóla úti svo margfalt betri en að vera innanhúss og svo er ég náttúrulega búinn að léttast um alveg ótrúlegan fjölda kílóa og hnéð á mér orðið gott, enda styrkja hjólreiðar liðamót og sinar.
Ætli ég sé ekki búin að spara mér hunduði þúsunda í ónotuðum líkamsræktarkortum með því að hjóla frekar. Kannski hentar þetta ekki öllum en þetta hentaði bæði mér og veskinu mínu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.