Saga af manni sem fann lífslöngunina

Það er maður í Reykjavík sem byrjaði að hjóla í haust. Þessi maður hafði alla tíð verið þéttur og þreyttur. Hann er vörubílsstjóri og situr allan daginn og keyrir. Hann sagði mér að hann hefði aldrei nennt í ræktina, aldrei getað spilað fótbolta með félögunum eða tekið almennilega þátt í dægradvölum barna sinna sökum þrekleysis.

Þessi maður fékk sér öl flest kvöld og borðaði alltaf með vinnufélögunum á kaffihúsum eða skyndibitastöðum. Hann sagðist vera komin með viðbjóð á lífi sínu og var alltaf að hefja nýtt líf með korti í ræktina, byrja að fara í sund á morgnana eða versla myoplex eða herbalife. Samt gerðist aldrei neitt... Hann átti jú orðið helling af íþróttafatnaði, líkamsræktarkortun og ónýttum sundkortum. Varðandi mataræðið átti hann heilan skáp af skyndilausnum.

Síðan kom gæfan yfir hann. Hann var tekinn fyrir of hraðann akstur og missti prófið í 30 daga. Þar sem konan hans vann hefðbundna vinnu frá 9 - 17 og oft lengur og börnin komin á unglingsaldur var hann með öllu atvinnu og verkefnalaus þessa 30 daga sem hann var próflaus.

Hann hélt fyrstu dagana áfram sínu gamla líferni að mestu, nema hann fór að stela hjóli stráksins síns til að hjóla niður á kaffistofu og hitta kallana í hádeginun. Á aðeins nokkrum dögum fann hann muninn hvað það varð auðveldara að hjóla þessa 5 km og svo fór að hann fór að velja sér hollari mat þar á kaffi stofunni þar sem hann týmdi ekki að skemma þennan árangur sem hann var farin að finna hjá sjálfum sér og eitt leiddi af öðru og á þessum 30 dögum breyttist hann úr lýsingunni hér að ofan yfir í lífsviljaðann og heilsuþenkjandi einstakling.

Þetta var í ágúst og síðan þá hefur hann lést um 25 kg og notar frístundir sínar til uppbyggilegra hluta eins og að fara út að hjóla eða stunda íþróttir með félögunum. Þessi maður hefur verið í reglulegu tölvupóstsambandi við mig síðan hann fékk áhuga á hjólreiðum og ég leiðbeint honum lítillega.

Hann segir að hann hafi öðlast lífsvilja sem hann hafi skort  í mörg ár við það eitt að þurfa að hjóla og það sem honum finnst skrítnast er að áður hafði hann aldrei litið á hjólreiðar sem lífsstíl, samgöngumöguleika eða íþrótt.

Hann vildi endilega að ég birti sögu hans og geri ég það hér með.

Batnandi manni er best að lifa og vil ég óska honum til hamingju með þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Gaman að heyra þetta. Hjólreiðar eru mannbætandi.

Anna Karlsdóttir, 4.12.2008 kl. 00:30

2 identicon

Frábær frásögn! Gaman að heyra svona, það er hvetjandi fyrir alla. :)

Magnús Sveinn Jónsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 08:54

3 Smámynd: Vilberg Helgason

Það er virkilega gaman að heyra af fólki sem finnur að hjólreiðar henta sér. Sjálfur var ég alltof þungur og átti erfitt með langhlaup vegna verkja í hné þegar ég rakst óvart á hjólreiðar.

Þvílíkur dýrðardagur það var ;) Engin álagsþreyta eða ofreynsla fylgdi því að byrja að hjóla. Það var bara byrjað á því sem maður réði við og það var alveg ótrúlegt hvað það var hröð framför og svo náttúrulega fuku kílóin.

Vilberg Helgason, 4.12.2008 kl. 10:32

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Fín saga úr heimi veruleikans. Þarna varð "ólánið" honum til gæfu. Fátt er svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott ... Eða eins og Sveinbjörn Eglisson rektor orti:

  • Guð það hentast heimi fann
  •      það hið blíða
  •      blanda stríðu.
  • Allt er gott, sem gerði hann. 

Jón Valur Jensson, 4.12.2008 kl. 11:05

5 Smámynd: Hjóla-Hrönn

Jebb, og ég er annað dæmi þar sem hjólreiðar hafa bjargað heilsunni, en ég komst varla á mili hæða heima hjá mér í vor.  Búin að bóka mig í gönguferð um spænsk fjallahéruð um haustið og gat ekki séð að ég kæmist í þá ferð sökum ofþyngdar, kraftleysis og mæði.  Ég byrjaði að hjóla í apríl síðastliðnum og fór mjög rólega.  Nánast allt í fyrsta gír.  En núna hjóla ég oftast í 3ja gír, fer standandi upp brekkurnar, búin að missa 18 kíló og bara heilsan allt önnur og betri.  Ég hafði ekki tíma í líkamsræktina, af því ég er með lítil börn.  Ég er ca 30 mínútur að keyra, hringsóla í leit að stæði og labba 5-10 mínútna leið í vinnuna en það er erfitt að finna langtíma bílastæði nálægt mínum vinnustað (miðbæ Rvk).  Ég er 20-30 mínútur að hjóla hvora leið, eða svipaðan tíma og ég eyddi áður í umferðarteppur og gremju.  Áður miðaði ég við 7 metra vind sem hámarksvind, en þegar ég hjólaði í gær í 9 metra mótvind, þá fór ég létt með það.

Hjóla-Hrönn, 4.12.2008 kl. 13:07

6 identicon

Góð saga

kveðja Rafn

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 17:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband