Færsluflokkur: Íþróttir

Svíþjóð: Stór hluti hjólreiðaslysa tengdir áfengisneyslu

BikeBeerSamkvæmt úttekt á 500 manns, eldri en 15 ára sem höfðu orðið fyrir höfuðmeiðslum við hjólreiðar og komið til aðhlynningar á slysadeild Umeå hospital A&E í Gautaborg kom í ljós að þriðja hver kona og annar hver maður hafði verið undir áhrifum áfengis á reiðhjólinu.

"Þrátt fyrir að hafa unnið á A&E og hafa séð fjöldann allan af sjúklingum með höfuðmeiðsl þá kom mér á óvart hvað margir þeirra meiddu voru undir áhrifum áfengis þegar þeir urðu fyrir slysi" sagði Per-Olof Bylund, sem vinnur við rannsóknir á slysum í læknaskólanum við Umeå

Það væri nú gaman að vita hversu margir hjóla fullir hérna á Íslandi. Ég held reyndar að það sé ekki mjög stórt vandamál því fólk er ekki búið að tileinka sér hjólreiðar sem samgöngumáta hérna ennþá og varla fær maður sér einn gráan áður en maður fer út með krakkana að hjóla eða stundar þetta sem íþrótt.

Reyndar veit ég að þeir sem teknir eru við að hjóla undir áhrifum í Svíþjóð fá punkt í ökuskírteinið en Svíar eru með svipað punktakerfi og við Íslendingar. Spurning hvort það ætti ekki að hefjast handa við gerð umferðarlaga fyrir reiðhjólaumferð og skella punktinum í ökuskírteinið með hérna líka.


Tour de France 2008 - upphitun #1

Tour de France 2008 - upphitun #1

korttourdefrance2008Tour de France eða Frakklandshjólreiðarnar byrja 5. júlí næstkomandi og standa til 27. júlí.
Því miður ætlar engin íslensk sjónvarpsstöð að sýna frá þessu svo ég viti en Eurosport hefur alltaf staðið sig og hægt verður að horfa á allar dagleiðirnar á þeirri fínu stöð sem hægt er að fá í sportpakka Stöðvar2 og hjá Símanum.

Frakklandshjólreiðarnar eru haldnar í nítugasta og fimmta skipti í ár og á 21 dagleið verða hjólaðir samtals 3.500 kílómetrar. 10 dagleiðir eru hjólaðar á jafnsléttu, 5 dagleiðir í erfiðu fjalllendi, 4 dagleiðir í meðalerfiðu fjalllendi og svo fara 2 dagar í tímatökur þar sem keppendur keppa sem einstaklingar ekki sem lið.

 21 lið taka þátt og í þeim eru samtals 189 keppendur.

Í fyrra var sigurvegari keppninnar Contador frá Spáni en hann er sá sami og vann Ítalíuhjólreiðarnar fyrir um mánuði síðan. Hann og lið hans Astana taka því miður ekki þátt í ár og fær hann því ekki tækifæri til að verja titilinn.

Smá tölfræði um sjónvarpsáhorf og fl.

  • 4 milljónir manna horfa að jafnaði á keppnina í sjónvarpi og 5.3 milljónir á lokadag keppninnar.
  • Tour de France er 129 klukkustundir af sjónvarpsefni og horfði hver frakki að meðaltali á 5.5 klukkustundir af keppninni árið 2004.
  • 91 útvarpsstöð útvarpa frá keppninni
  • 92 sjónvarpsstöðvar sýna frá henni og þar af 51 beint.
  • 180 lönd sýna frá keppninni
  • 15 milljónir áhorfenda koma til að horfa á keppnina, þar af 66% karlmenn og 34% konur.
  • Heimasíðan www.letour.fr fær 67,5 milljón heimsóknir.

Treyjurnar í keppninni

tourgula

Gulu treyjuna klæðist sá sem er fyrstur í mótinu og er á bestum samanlögðum tíma eftir allar dagleiðirnar. Svo klæðist sigurvegari keppninnar hennar í lokin.

Þessi treyja er kölluð Maillot Jaune

 

 

 

tourpolka

 Polka Dot treyjuna fær sá sem hefur yfirburði í klifri (að hjóla upp brekku) á meðan á fjalladagleiðunum stendur og er henni svo úthlutað til þess sem best stóð sig í brekkunum í lok keppninnar

Þessi treyja er kölluð Maillot a pois rouges

 

 

tourgraen

Græna treyjan er svokölluð Sprint treyja sem er hugsuð fyrir þá sem standa sig best á sléttlendi og eru efstir af samanlögðum sprint (sprett) stigum. Veitt eru stig fyrir sætin sem keppendur koma inní og eru flest sæti veitt fyrir fyrsta sætið og svo framvegis. Færri Sprint stig eru veitt fyrir fjallaleiðirnar en leiðirnar á sléttlendi. Þessi treyja er kölluð Maillot Vert

 

 tourhvita

 Hvíta treyjan er hugsuð fyrir þann sem er fremstur í keppninni og er yngri en 25 ára og yngri. Þessi treyja er kölluð Maillot Blanc

 

 

 

Hverjir þekkja Tour de France

Samkvæmt könnun sem gerð var í 7 löndum árið 2001 um hvort fólk þekkti til Tour de France sást að keppnin er mjög þekkt en hlutfall þeirra sem þekktu til hennar eftir löndum var svona:

  • Þýskaland 96%
  • Belgía 96%
  • Frakkland 96%
  • Spánn 96%
  • Bretland 95%
  • Ítalía 94%
  • USA 56%

Svo að lokum flott video sem sýnir úr lofti leiðirnar sem hjólaðar verða í ár.

 


91% samgönguaukning á reiðhjólum frá aldamótum.

Meira en hálf milljón ferða er farin á reiðhjólum eftir aðalgötum Lundúna á hverjum degi samkvæmt Transport for London (TfL)

londonhjolreidamadurÞessi tölfræði sýnir að það hefur orðið 91% aukning af ferðum förnum á reiðhjólum síðan mælingar hófust árið 2000

Frá mars 2007 til mars 2008 jukust hjólreiðar á aðalgötum um 4,5% sem er um 20.500 fleiri ferðir á hverjum degi.

Á þessu ári verður rúmlega 8 milljörðum íslenskra króna eytt í að bæta aðstæður fyrir hjólreiðar í London sem er 1000% aukning á fjárútlátum til þessa málaflokks frá árinu 2000.

Borgarstjóri London, Boris Johnson sagði: "Ég er hæstánægður með aukninguna af fólki, þar með töldum sjálfum mér, sem veljum að hjóla í London. Þetta er stórt skref í samgöngumálum sem er frábært." "Samt er tala reiðhjólaferða of lág ennþá, sem bendir til þess að margir Lundúnabúa þurfi frekari hvatningu tl að taka upp hjólreiðar sem samgöngukost"

TfL vill auka fjölda ferða sem farnar eru á reiðhjólum um 400% fyrir árið 2025 sem jafngildir því að 5% allra ferða sem farnar eru í borginni séu farnar á reiðhjóli. 


Bannað að grýta hjólreiðamenn

Í suður karólínu í í bandaríkjunum var verið að setja lög sem eiga að auka öryggi hjólreiðamanna.

Eftir nokkur slys þar sem hjólreiðamenn hafa dottið eftir að hlutum hefur verið hent í þá úr bílum og þeir jafnvel skotnir með loftbyssum þá voru sett lög þar sem ósæmileg hegðun gagnvart hjólreiðamönnum flokkast undir glæp. Sekt við brotum á nýju lögunum er 250$.

Það eru nokkrir hlutir sem mér finnst náttúrulega svo fáránlegt að þurfi að setja í lög eins og að það sé bannað að skjóta hjólreiðamenn með loftbyssu eða henda í þá rusli. Og svo eru gagnlegir hlutir eins og að hægt er að sekta ökumenn fyrir að aka of nálægt hjólreiðamanninum.

Að aka of nálægt hjólreiðamönnum refsingin er eitthvað sem myndi nýtast hjólreiðamönnum á Íslandi. Við sem hjólum í umferðinni verðum stundum fyrir því að ökumenn bifreiða ætla að kenna okkur smá lexíu af því að þeim finnst við vera fyrir þeim. Ein algengasta leiðin sem notuð er, er að keyra frammúr með því að láta bílinn nánast sleikja hjólið hjá manni. Þetta getur valdið óþægindum og auðvitað má fátt fara úrskeiðis þegar maður er aðþrengdur að bíl.

Ég vil bara minna ökumenn á að hjólreiðamenn eiga sama rétt og bílar á götunum og til þeirra sem flauta og benda á gangstéttirnar þá eru þær hugsaðar fyrir gangandi vegfarendur ekki hjólreiðamenn. Í Englandi er t.d. bannað að hjóla á gangstéttum og það eru bara örfáir áratugir síðan hjól voru leyfð á gangstéttum Íslands og þar erum við einungis gestir því gangandi umferð hefur forgang.

Á meðan aðstæður fyrir hjólreiðamenn eru ekki betri hérna á fróni og við eigum ekki okkar akreinar á götunum þá verðum við að sjálfsögðu að nota það sem er fyrir hendi.


Loksins leið til að brenna hitaeiningum í tölvunni

cateye 

Núna hafa krakkarnir og náttúrulega fullorðnir leikjafíklar enga afsökun fyrir því að hreyfa sig ekki.

Það er kominn stýripinni sem hentar vel í öllum bíla og hjólaleikjum. Cateye hjólið er í raun stýripinni þar sem petalarnir stjórna hraðanum og stýrið beygjunum. Svo eru náttúrulega fleiri takkar á stýrinu fyrir öll aukaatriðin. Þessi stýripinni/þrekhjól passar við Playstation 2 og 3, Xbox, GameCube og allar PC tölvur. Hjólið var hannað af tveim læknum sem höfðu áhyggjur af ofþyngd og hreyfingarleysi barna.

hægt er að kaupa hjólið í Bandaríkjunum á um 350$ og það er hægt að fá það í 2 stærðum.

Er þetta ekki málið í vetur til að blanda saman tölvuleikjum og hreyfingu. 

 


Hjól sem passar næstum í rassvasann

a-bike

Nú er komið á markað minnsta og léttasta samanbrjótanlega hjól sem völ er á. Það er svo lítið að hægt er að taka það með sér í strætó og hafa það við fætur sér, taka það með í leigubíl eða hreinlega að rölta með það í bakpoka þegar maður fer inní búðir. Þetta hjól kallast a-bike. Þetta er algjör snilld og alls ekki svo vitlaust að eiga eitt svona. Hámarkshraði er gefinn upp 24 km hraði og það er einungis 5,5 kíló. Það er hægt að brjóta það saman og taka sundur á innan við 10 sekúndum. Svona hjól kostar 300 dollara í bandaríkjunum og með öllu ætti að vera hægt að flytja það inn fyrir minna en 40.000 kr.

Svo er smá vídeo af einhverjum að brjóta það saman


Bláalónsþrautin fór vel fram í góðu veðri.

Það vantaði ekki spennuna og tilhlökkun í þátttakendurna sem mættu til að taka þátt í 13. Bláalónsþraut, Hjólreiðafélags Reykjavíkur í morgun. Eftir undanfarna rigningardaga vissu keppendur ekki hvaða verðrum von var á á leiðinni en mættu samt galvaskir með keppnisskapið og viljann að verki fyrir ræsingu þrautarinnar sem fór fram klukkan 10 í morgun.

blaastart
Mikill fjöldi lagði af stað eftir Strandgötu í Hafnarfirði

Það lögðu um 120 þátttakendur af stað í 11° hita og sjö metra suðaustanvind. Þrautin hófst þannig að allir voru ræstir samtímis og hópurinn hélst nokkuð saman fyrstu kílómetrana en fljótlega fór að togna vel á fyrstu og síðustu mönnum. Framanað fór leiðin að mestu fram á malbiki og nýttu keppendur sér það til þess að halda sem bestum hraða og vinna upp sem mestan tíma fyrir djúpavatnsleiðina sem var þónokkuð torfarnari. Gróf möl og ágætispollar drógu úr hraða þátttakanda en allt gekk vel og allir skiluðu sér í mark vel skítugir og sáttir.

pollur
Það var ekki alltaf jafn þurrt á leiðinni

Þegar komið var í mark fengu þátttakendur sér vel að borða af kjötsúpu, ávöxtum og ýmsum kræsingum sem í boði voru. Eftir að hafa kýlt út vömbina drifu allir sig í lónið og var góð stemming á meðan beðið var eftir verðlaunaafhendingu. Ekki kæmi á óvart þó einhverjir hefðu tekið aðeins við sér því sól og 14° hiti var komin þegar komið var í lónið.

Sú nýjung var í þrautinni í ár að hægt var að skrá lið í firmakeppni og tóku 9 fyrirtæki þátt og sigraði lið Dohopmeð þónokkrum yfirburðum. Reglurnar í firmakeppninni eru þannig að 4 - 5 eru saman í liði og er samanlagður tími þriggja fyrstu manna í liðinu tekinn saman og hjóluðu þeir samtals á 6 klukkustundum 16 mínútum og 21 sekúndu eða á um 35 mínútum betri tíma en næsta lið.

dohop
Lið Dohop sem sigraði í firmakeppninni

Sigurvegari Bláalónsþrautarinnar í opnum flokki karla var Hafsteinn Ægir Geirsson og í opnum flokki kvenna var það María Ögn Guðmundsdóttir sem vann sigur úr bítum.

Allar frekari upplýsingar um úrslit og myndir úr mótinu er að finna á heimasíðu Hjólreiðafélags Reykjavíkur www.hfr.is

Myndir teknar af Alberti Jakobssyni.

 


Dæmi um samgönguáætlun fyrir hjólreiðar - ekki íslensk því hún er ekki til.

large_flag_of_norwayÉg tók mig til og las norsku samgönguáætlun þeirra um hjólreiðar og gerði smá útdrátt. Og þar sem norðmenn eru fyrirmyndir okkar í svo mörgu væri óskandi að Íslenska ríkisstjórnin myndi krota saman smá stefnu fyrir næstu ár. Enda sorglegt að lesa í grein í sunnudagsmogganum seinasta að þetta væri allt á valdi sveitafélaganna að mati vegagerðarinnar. Besta dæmið um það er eflaust að ekki hefur verið gerður göngu né hjólastígur frá Akureyrarflugvelli niður í bæ þar sem vegagerðin á veginn, ekki Akureyrarbær. 

Á meðan við Íslendingar eigum ekki stafkrók í samgönguáætlunum um hjólreiðar þá eru Norðmenn að standa sig mun betur en við. Þeir eru búnir að sjá að hjólreiðar eru hagkvæmur kostur fyrir fjármál ríkisins. Þeir eiga meira að segja orðið 2 af 11 hjólavænstu borgum heimsins. 

En hérna er stiklað á stóru í norsku samgönguáætluninni. 

Öryggi
Mikilvægt sé að hættan af dauðsföllum og varanlegum meiðslum hjólreiðamanna meigi ekki vera hærri hjá hjólreiðamönnum heldur en þeim sem ferðast á vélknúnum tækjum. 

Umhverfi
Að ná fram grænni samgöngumáta með öflugum hjólastígum frá úthverfum. 

Hagkvæmni
Norðmenn hafa reiknað það út að sparnaður af hverjum þeim sem velur hjólreiðar sem samgöngumáta sé um hálf milljón íslenskra króna. Þessi útreikningur er fengin út með því að finna kostnað við rekstur vegakerfis, árekstra, meiðsla og fleiru en þessi ávinningur miðast við að samgöngukerfið sé fullbúið fyrir hjólreiðamenn. 

Hlutdeild hjólreiða
Í Noregi eru hjól valin í 4% tilfella fram yfir aðra samgöngumáta en í flestum öðrum Evrópulöndum er það milli 5 og 10%, þar sem Holland er á toppnum með 28%, Svíþjóð með 12% og er markmið Norðmanna að koma þessu hlutfalli í 16% á árinu 2010.Helmingur allra ferða sem farnar eru í Noregi eru styttri en 5 km sem ætti að bjóða uppá að fjölga þeim sem labba eða hjóla þessar ferðir um 50% í bæjum og borgum stærri en 5.000 íbúa. 

Norðmenn vilja hlutdeild hjólreiða sem samgöngumáti í hjólreiðaborgum eigi að aukast um 50%Að fjöldi ferða þar sem reiðhjól er notað eigi að vera í það minnsta 8% af skreppum og öðrum ferðum.  

Að gera það öruggara og meira aðlaðandi að hjóla:
Markmiðinu að auka hjólreiðanotkun geti einungis verið náð með því að hjólreiðar séu öruggar fyrir einstaklinga, sérstaklega þannig að foreldrum finnist börnin sín örugg á leið til og frá skóla.Að hjólaleiðin sé sem styðst og auðveldara sé að komast á hjóli en á bíl á áfangastað.Að hjólaumferð sé gefin forgangur eða jafn réttur ávið bíla á götum og við gatnamót.Gott aðgengi og geymsla fyrir reiðhjól við verslunarmiðstöðvar og samgöngupunkta. 

Til að þetta sé hægt þurfi samhent átak ríkisins, vegamálastofnunar, fyrirtækja, stofnana og hagsmunasamtaka. 

Umferðarreglur
Bæta þurfi umferðarreglurnar til að gera hjólreiðar öruggari og hjólreiðafólk hvatt til að virða nýjar reglur. Öryggisstaðlar verði settar fyrir reiðhjól og hjólreiðamenn þurfi að vera með hjálm og í sýnilegum klæðnaði með endurskinsmerki. Einnig eigi að vera hjólreiðaþjálfun og kennsla fyrir börn. 

Hvatning til hjólreiða
Hvetja eigi til hjólreiða með því að draga úr forgangi bílaumferðar með veggjöldum og bílastæðagjöldum.  

Staðall um hjólastíga
Gerður verði staðall eða leiðbeinandi línur fyrir gerð hjólastíga og það væri ábyrgð ríkisstjórnarinnar að tryggja hjólastíga í borgum og bæjum með fleiri en 5.000 íbúa. Að halda áfram við gerð hjólastíga með þjóðvegum landsins. Sjá til þess að gæði hjólastíga séu góð. 

Góð og örugg hjólastæði
Að tryggja örugg hjólastæði við almenningssamgangnastöðvar og gera tryggar hjólaleiðir frá byggðum svæðum að svoleiðis stöðvum. 

Almenningssamgöngur
Tryggja að hægt sé að taka reiðhjól með í almenningssamgangnatæki utan háannatíma. 

Tenging við atvinnulífið
Vinnuveitendur þurfa að hvetja til hjólreiða. Með uppsetningu sturtu og hvatningu til hjólanotkunar í tengslum við vinnu, örugg hjólastæði, stofna til hjólasamninga og styrkja starfsmenn til hjólakaupa. 

Markaðssetning hjólreiða

Stefna í markaðssetningu hjólreiða sem miðar að öruggum hjólreiðum. Skilboðum til þjóðarinnar um kosti hjólreiða þurfi að fylgja eftir með auglýsingaherferð í hjólabæjum.

Þá er bara að bíða íslensku samgönguáætluninnar.


Er í lagi að hjóla með Ipod ?

ipod3Í gær lenti hjólreiðamaður á Akureyri í því að hjóla þvert fyrir bíl sem hafði keyrt samhliða honum á götuni Hjólreiðamaðurinn var að hlusta á Ipod meðan hann hjólaði. Sjálfur hjóla ég stundum með Ipod en sleppi því alfarið þegar ég hjóla á götunni því að  eins óvarinn og maður er gagnvart bílum þá er eins gott að hafa öll skynfæri opin og vera öllu búin.

En svo virðist sem hann hafi ekki heyrt í bílnum og ætlað að þvera götuna og bíllinn skollið á honum eða hann á bílnum.

Lögreglan í Ástralíu hefur sent aðvörun til hjólreiðamanna að hjóla ekki með Ipod eftir að áströlsk kona lést þegar hún hjólaði fyrir bíl í London. Slysið er rakið til þess að hún var að hjóla með Ipod í eyrunum.

Mikil umræða skapaðist á vefnum eftir slysið í Lundúnum og margar greinar voru birtar um hættuna af því að hjóla með tónlist í eyrunum á meðan aðrir bentu á að það ætti þá að banna tónlist í bílum og á mótorhjólum ef banna ætti reiðhjólamönnum að vera með tónlist í eyrunum.

Svo var náttúrulega bent á það að ekki er hægt að einblína á reiðhjólamanninn heldur sé líka um að ræða óttillitssemi bílstjóra við hjólreiðamenn. Þetta leiðindaslys á Akureyri verður vonandi til að farið verði að auka rétt hjólreiðamanna í umferðinni og þeir fái sín svæði til að hjóla á götunni. Styðsta leiðin frá A - B er yfirleitt leiðin sem er hugsuð fyrir bíla, ekki fyrir göngustíga eða hjólreiðastíga, þessvegna neyðumst við oft til að vera á götunni.

 

 


Já setjum mengunarskatt á eldsneyti en fellum þá öll gjöld af reiðhjólum

Frétt af textavarpinu: 

Fella ætti niður vörugjöld bifreiða   
Pétur Blöndal, formaður efnahags- og  
skattanefndar, segir nóg að setja     
mengunarskatt á eldsneyti. Hins vegar 
ætti að fella niður vörugjöld bifreiðar
og bifreiðagjald. Brýnt sé að stuðla að
því að fólk kaupi sér nýja og         
umhverfisvænni bíla.

Af hverju bíla
Af hverju á að stuðla að því að fólk kaupi sér nýja og umhverfisvænni bíla ?????? Hvað varð um að fólk veldi sér umhverfisvænni og heilsusamlegri samgöngukost.

Persónulega er bíladýrkun stjórnvalda að kenna hvernig komið er fyrir samgöngum hérna á landi. Ef við værum með aðra valkosti myndum við hugsanlega velja þá.

Hvað þarf til að velja aðra kosti eins og hjólreiðar og hvaða atriði setur fólk helst fyrir sig að hjóla í vinnu.

Það er ekki búið að hvetja fyrirtæki til þess að setja viðunandi aðstoðu eins og sturtu, fataskápa og viðunandi aðstöðu fyrir reiðhjól. Ef fólk gæti geymt jakkafötin í vinnunni og farið í sturtu væri mun vænlegra að hjóla í vinnuna.

Takmarka fjölda bílastæða við fyrirtæki og stofnanir væri stærsta hvatning til notkunar annarra samgöngumáta. Hvert bílastæði gæti hýst allt að 20 reiðhjól. Og hvað ef við værum með skýli sem myndu hlífa hjólum frá rigningu og snjókomu þannig að maður gæti komið að hjólinu sínu þurru og vera ekki hræddur að hjólið myndi ryðga við það eitt að fara í vinnuna.

Tollar og skattur á reiðhjól. Jú öll eigum við hjól en kostnaður við að eiga gott hjól eins og góðan bíl er vandamál fyrir marga. Hjólreiðamaður sem ætlar að hjóla allt árið þarf að fjárfesta í útivistafatnaði, gleraugum og eiga nagladekk þegar það á við. Það er fáránlegt að þurfa að borga 10% toll og 24,5% virðisaukaskatt af vistvænasta samgöngumáta sem völ er á.
Dæmi er að setja nagladekk á hjólið sitt kostar 15.000 kall í dag ef þú getir það sjálfur en ef tollur færi af myndu hjólreiðamenn geta keypt sér nagladekk fyrir innan við 10.000 kall.

Samgöngur
Halló... Jú það er loksins verið að tala um að bæta ferðamáta hjólreiðamanna í Reykjavík með "Grænum skrefum" en hvað um þá sem búa í Hafnarfirði, Kópavogi og Garðabæ og þurfa að ferðast til Reykjavíkur til vinnu. Eða þá sem búa á Hrafnargili og vinna á Akureyri. Nei þeir hafa engan annan kost en bílinn. Er ekki málið að í stað þess að gera öll þessi göng fyrir BÍLA að gera eitthvað fyrir þá sem vilja velja hjólreiðar.?
Ef þú býrð á Akranesi þarf þú að hjóla hvalfjörðinn því ef þú villt fara til Rek til vinnu þá eru hjólreiðar  jú bannaðar í göngunum. Og ef þú villt fara frá Hafnarfirði til Reykjavíkur þarftu að vera í rúmlega 1 klst að þvælast eftir ílla lögðu stígakerfi til að komast milli sveitafélaga. Og fyrir þá ferðamenn sem koma til landsins þá þurfa þeir að hjóla eftir Reykjanesbrautinni til að komast til Reykjavíkur. Það versta er að það eru til umræður um að banna reiðhjól á Reykjanesbrautinni, það hvarflaði ekki að neinum að gera hjólastíg... nei best að banna hjólreiðar og sjá hvað gerist.
Uppáhaldið mitt er samt þegar Steinunn Valdís og Ólof Nordal vildu banna hjólreiðar á forgangsleiðum strætó. hvar hefði ég þá þurft að hjóla á Miklubrautinni. Jú milli strætó og umferðarinnar, það væri ekki að setja öryggið á oddinn að leggja af stað í þá ferð. 

Skattasparnaður... Jú láta fyrirtæki sem geta sýnt fram á minni bílastæðanotkun og minni notkun bílsins fá einhverja skattaafslætti..... Það eru fyrirtæki og stofnanir á Íslandi að bjóða uppá þetta en af hverju er bara Reykjavíkurborg með þetta í einum af sínum deildum, hver er ríkið í þessu. Ráðuneyti og skrifstofur eru jú allar í nánd hver við aðra... Reykjavíkurborg er búin að kaupa hjól til styttri ferða til að gera snattið "grænna" en ríkið er ekki að gera neitt

Það væri gaman að sjá hvort að hin fína hvataræða Geirs Haarde um að skoða aðra valkosti en bílinn myndi skila sér til ríkisstjórnarinnar og þeirra sem hennar tilheyrir.

svo maður noti slagurð vínbúðanna í nýju auglýsingunum "´þú verður ekki svín af  því að ferðast "green""

Geir.... þú verður meir ef þú hjólar þannig að endilega farðu að vinna að bættri hjólreiðanotkun á íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband