Færsluflokkur: Íþróttir
Vefskráningu í Bláalónsþrautina er til 6. júní á www.hfr.is og endilega kynna sér þrautina og taka þátt. Eins og kemur fram hér neðan þá geta allir tekið þátt.
Efni um hjólreiðar
Ég verð sjaldan jafn glaður en þegar ég sé fólk með sömu áhugamál og stefnur á blogginu sínu og ég. En í dag birtist alveg frábært blogg og það var birt á einum af þessum tenglavefjum okkar íslendinga.
Þetta er góð lesning og slóðin á boggið eða "vefritið" eins og það er kallað er hægt að nálgast hér
Málið er að það eru fleiri og fleiri fjölskyldur að tileinka sér reiðhjólið sem samgöngumáta og fleiri og fleiri fjölskyldur eiga ekki bíl lengur. Þetta hefur oft ekkert með efnahag að gera heldur sjónarmið.
Góð sjónarmið til að velja geta verið:
Heilbrigði:
Fullorðnir:
Fullorðnir þurfa á hreyfingu að halda og rannsóknir sýna að þeir sem hjóla lifa lengur og eru með langtum betri æðakerfi og betra hjarta en þeir sem ferðast allra sinna ferða án áreynslu.
Börn:
Börn eru oft keyrð í skólann, keyrð á æfingu og keyrð til vina en kannski er það vandamálið með þessa kynslóð barna sem allir kenna tölvuleikjum um að séu of feit eða ekki í formi að þau eru keyrð allra sinna ferða. OK leyfið kannski börnunum að hanga í tölvuleikjum en ekki bæta ofan á það með leigubílaakstri. Grunnhreyfing barna getur alveg komið úr daglegum samgöngum þó þau séu ekki æfandi íþróttir.
Hagkvæmni:
Rekstur bílsins:
Það eru nokkrir kostnaðarliðir við rekstur bíls. Lánið í myntkörfu sem hefur hækkað um helling frá upphafi, Tryggingar hafa hækkað langt umfram verðlag og svo er það rekstur bílsins. Þá er ég ekki bara að tala um eldsneyti heldur bremsuklossa, olíuskipti, slitna hluta bílsins, þrif, bón og allt sem fylgir því að eiga bíl. Sjálfur reiknað ég út að það kostaði mig rúmlega milljón á ári að eiga bíl meðan ég rak slíkan. Fyrir þann pening gæti ég keypt mér 10 - 20 reiðhjól og rekið þau allt árið og notað strætó þegar ég nennti ekki að hjóla heim.
Heilsan:
Heilbrigði og heilsa eru jú oft tengd saman en heilsubótin sem fæst úr hjólreiðum verður aldrei of oft sögð. Þeir sem hjóla eru betur til fallnir en flestir aðrir. Enda hefur það komið í ljós að þeir sem hjóla til vinnu eru sjaldnar veikir og þeir þjást ekki af slitmeiðslum eins og þeir sem stunda aðrar íþróttir. Auk þess sem grunnþjálfun fyrir flestar aðrar íþróttir er farin að eiga sér stað á reiðhjóli. Það er meira að segja svo langt gengir að maraþonhlauparar eru farnir að hjóla sér inn þol til þess að spara mjaðmir og hné.
Líkaminn:
Málið er með hjólreiðar að á hjólinu getur þú stundað hina fullkomnu áreynslu án þess að slíta líkamanum ef að hjólið er rétt stillt. Hné, Mjaðmir, bak og fleiri álagspunktar í flestum íþróttum eru súkkat í hjólreiðum. Sjálfur er ég með vatn og hrufur undir vinstri hnéskel og eftir að hafa verið of þungur var ég slæmur í mjöðm en þetta hvarf allt við hjólreiðar og ég styrkti vöðva, sinar og sál.
Sál:
Ég hef oft sagt að ég þurfi að fá sálfræðimeðferð við öllum mínum kvillum enda á ég langa sjúkrasögu að baki með blæðandi magasár útaf bakteríu í maga og fleira en það góða er að eina íþróttin sem hægt er að byrja að stunda fljótt eftir sjúkrahúslegu eru hjólreiðar. Enda veita hjólreiðar manni hið fullkomna frelsi. Þegar ég hjóla kem ég engu neikvæðu að hjá mér né nokkur annar sem ég þekki. Þetta er hin fullkomna ástand af frelsi, þeas að hjóla
Ég hef notað þá skemmtilegu leið í svokölluðu "recovery" að fara bara með strákana mína að hjóla 10 - 30 km rúnt og þeir eru 6 og 10 ára. En málið er að það geta allir hjólað 30 km ef þeir taka það bara á réttum hraða. Og að vera slappur, þreyttur eða finnast maður ekki geta neitt þá kemst ég alltaf að því að get allt á hjóli og að fara 50 km rúnt á stígakerfi Reykjavíkur er engum ofviða ef þeir bara taka það á sínum hraða.
Það er til gott slogan sem prentað er á boli í útlöndum sem er "get a live - get a bike"
en í mínu tilviki er það "after I got að bike, I got a live"
Íþróttir | 4.6.2008 | 21:22 (breytt 5.6.2008 kl. 11:50) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á hjólhest
Gísli Marteinn held ég að hafi veðjað á réttann hest þegar hann fór að vera í forsvari fyrir Grænu skrefin, því þau eru hreint frábær.
Gísli hefur skemmtilega evrópska sýn á Reykjavík og er fyrsti hjólreiðapólitíkusinn sem ég veit um. Vissulega er vitað að Mörður Árna hjólar margra sinna ferða og vonandi fleiri.
Það þýðir ekki bara að setja útá það verður að hrósa þegar vel er gert
Í fyrsta skipti hef ég það á tilfinningunni að úrbót í samgöngumálum sé að verða hjá okkur hjólreiðamönnum í Reykjavík.
Svo virðist sem næstu skref "Grænna skrefa" sem eru að fórna akgrein fyrir hjólarein með suðurgötu og að aðskilja göngustíga frá hjólastígum milli Ægissíðu og Elliðárdals auk fleiri krefjandi leiða séu ekki bara eitthvað sjónarspil pólitíkusa heldur metnaðarfullt og frábært framtak.
Svo er ekki hægt að komast hjá því að hrósa Morgunblaðinu fyrir umfjallanir sínar um hjólreiðar undanfarnar vikur. Fjölmargar greinar og úttekktir á aðstæðum hjólreiðamanna og birting innsendra greina hefur verið til fyrirmyndar. Besta dæmið er líklega 3ja síðu umfjöllun um aðstæður hjólreiðamanna og umfjöllun um Grænu skrefin í Sunnudagsmogganum.
Í þeirri grein er rætt við Gísla Martein borgarfulltrúa , Pálma Freyr hjá umhverfissviði borgarinnar og Sesselíu Tómasdóttur hjá Landssamtökum hjólreiðamanna.
Í greininni leggur Gísli mikið uppúr öryggi hjólreiðamanna í umferðinni og fær hann sérstakt hrós fyrir að ætla Ósabraut sérstaklega fyrir hjólandi og gangandi umferð. Frábær tilfinning að leið sé gerð einungis til að stytta leið hjólreiðamanna úr Grafarvogi að stígnum við Sæbraut.
Pálmi Freyr hefur lengi verið til fyrirmyndar íi umfjöllun sinni um hjólreiðar ogég er einstaklega hrifinn af 15 mínútna kortinu sem kemur fram í greininni. 15 mínútna kortið var gert þannig að hann hjólaði í 15 mínútur í mismunandi frá Kringlunni og skráði niður hversu langt hann komst á þeim tíma sem voru um 4,8 km radius. Snilldarhugmynd sem sýnir svart á hvítu skilvirka yfirferð hjólreiðamannsins án áreynslu.
Svo ætla ég að hrósa Sesselju úr Landssambandi hjólreiðamanna fyrir frábæra hlið hennar á aðstoðu okkar hjólreiðamanna í greininni án þess að vera of dómhörð heldur einungis raunsæ. Þar benti hún sérstaklega vel á kosti reiðhjóla í umferðinni og biðlaði til bílstjóra að sýna hjólreiðamönnum aukinn skilning.
Ég setti greinina í heild sinni í pdf formi á bloggið mitt því hún er góð lesning fyrir alla hvort sem þeir eru hjólreiðamenn eða bílsstjórar sem þurfa að vera með hjólreiðamönnum í umferðinni.
Hægt er að nálgast greinina með því að smella hér.
Í greininni minntist Pálmi á góðar tengingar fyrir hjólreiðamenn milli austurs og vesturs, meðal annars meðfram Miklubrautinni. Málið er að það er ekki auðvelt að ferðast með Miklubrautinni frá austri til vesturs þar sem margar götur þarf að þvera og því tímafrekt og oft áhættusamt að fara yfir götur á annatímum. Margar hægri beyjur eru án ljósa á leiðinni. Það hefði mátt nýta tækifærið meðan verið er að gera forgangsakbraut fyrir strætó frá Grensásvegi að Kringlumýrarbraut og hafa hana aðeins breiðari og gefa okkur hjólreiðamönnum okkar hjólarein samhliða forgangsakgreininni.
Íþróttir | 2.6.2008 | 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tour de France meistarinn Alberto Contador er fyrsti erlendi keppandinn til að vinna Ítalíuhjólreiðarnar (Giro d'Italia) síðan 1996. En sigurvegarar ítalíuhjólreiðanna hafa verið heimamenn síðastliðin 12 ár.
Spánverjinn sigraði heimamanninn Riccardo Ricco með einni mínútu og 57 sekúnndum betri heildartíma allra dagleiðanna, þrátt fyrir að hafa ekki náð að sigra eina einustu dagleið af þeim 21. sem hjólaðar voru.
Marzino Bruseghin var svo þriðji á 2:54 lakari tíma en Contador.
Á lokadagleiðinni sem var 28,5 km tímataka frá Cesano Mademo til Milan var Marco Pinotti fljótastur á 32:45.
"þetta var erfið keppni og það voru margir keppendur sem hefðu getað unnið, sem gerir það jafn ánægjulegt og að sigra Tour de France eða jafnvel ánægjulegra", sagði Contador, sem er aðeins annar af tveimur spánverjum nokkurntíma til að vinna ítalíuhjólreiðarnar.
Sigur Contador var stórkostlegt afrek þar sem liðinu hans Astana var boðið að taka þátt í keppninni með einungis viku fyrirvara.
Lokastaða Ítalíuhjólreiðanna
1 A Contador (Sp) 89klst 56min 49
2 R Ricco (It) @ 1min 57sek
3 M Bruseghin (It) @ 2:54
4 F Pellizotti (It) @2:56
5 D Menchov (Rus) @ 3:37
6 E Sella (It) @ 4:31
7 J Van den Broeck (Bel) @ 6:30
8 D di Luca (It) @ 7:15
9 D Pozzovivo (It) @ 7:53
10 G Simoni (It) @ 11:03
Íþróttir | 1.6.2008 | 18:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framtíðin í reiðhjólum ?
Það eru nokkrar skemmtilegar myndir til af hugmyndahjólum framtíðarinnar á netinu og ég tók nokkrar og setti smá skýringartexta við þær. Þetta eru misskemmtilegar hugmyndir en vissulega myndu svona hjól vekja athygli útá götu. Þessar hugmyndir eru frá hönnunardeild BMW og Specialized.
Skemmtilega útfært hjól framtíðarinnar. Engin nöf á afturdekkinu og engin keðja. Framdekkið er einnig með nýrri útfærslu þar sem stórt op er í miðjunni á því og útjaðrar gatsins tengjast stellinu. Svo er bara spurning hvernig svona hjóli er stýrt en vissulega skemmtileg hönnun.
Frekar hefðbundið hjól á allan hátt. Gaffall og stýri tengjast og ekki ólíklegt að það sé keðja í þessu plastboxi. Einnig hefðbundnar. Í raun ekkert framtíðarlegt við þetta
Þetta hjól eins og það á undan hefur ekki margt framtíðarlegt við sig. Sýnileg keðja og hefðbundinn gaffall og stýri sem tengist gafflinum. En samt er útfærslan á tengingu afturhjólsins við stellið athyglisverð og spurning hvort það sé eitthvað hinu megin á afturdekkinu sem við sjáum ekki. Útfærslan á sætinu er samt mjög spés og örugglega ekki mjög þægileg.
Þarna erum við svo með skemmtilega útfærslu af stelli. Eins óhefðbundin og hún getur verið. Engin tengsl milli stýris og framdekks og gaman að vita hvernig svona hjóli sé beygt til hægri eða vinstri. Það virðist ekki vera keðja og á sama hátt og á hjóli hér að ofan er framfelgan fest á óhefðbundinn hátt.
Þarna erum við með sniðugt hjól. Svo virðist sem engin keðja sé og sætið og stýrið er frekar framúrstefnulega sett upp. En dekkin eru með hefðbundnum nöfum og diskabremsum. Einnig er notast við hefðbundinn þríhyrning á rammann til að festa afturdekkið. En flestir rammar eru með svokallaðri Diamond uppsetningu í dag þar sem 2 þríhyrningar eru festir saman og svo skellt gaffli framan á. s.s. hefðbundinn aftari helmingur.
Þetta hjól er næstum alveg eins og hjólið hér að ofan nema að allt bendir til þess að það sé keðja á því sem er mikill mínus. Það virðist líka ótrúlega stutt á milli sætis og stýris þannig að þetta yrði seint þægilegt hjól til lengri hjólatúra. Svo sé ég ekki tilganginn með þessum "bensíntank" þarna ofan á hjólinu þar sem öll stefna í hjólum nútildags er að hafa þau sem efnisminnst og með sem minnsta vindmótstöðu.
Þetta hjól lítur út eins og gamalt mótorhjól og í raun ekkert framúrstefnulegt við það. Allavega ekki reiðhjólalega séð. Það eina sem er ekki hefðbundið við það er að það er búið að troða fullt af plasti á það og svo er ekkert naf á framhjólinu og gaffallinn einungis festur öðru megin.
Íþróttir | 1.6.2008 | 14:07 (breytt 8.6.2008 kl. 17:03) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skráning í BláaLónsÞrautina.
Keppendur skrá sig á heimasíðun HFR Smella hér til að skrá
Keppnisgjald er 1500 kr á mann.
Netskráning lýkur 5 júní. Eftir 5 júní verður einungis hægt að skrá sig á keppnisdag og hækkar gjaldið í 2500 kr á mann. Það er til mikillar hagræðingar fyrir keppnisstjórn að keppendur skrái sig sem fyrst til keppni!!!
Bláalónsþrautin á fjallahjóli er fyrst og fremst almenningshjólreiðamót og tilvalið fyrir fólk sem er að byrja sinn hjólreiðaferil að taka þátt!
Boðið er uppá liða og firmakeppni.
Hægt er að sjá upplýsingar um þrautina á heimasíðu Hjólreiðafélags Reykjavíkur á www.hfr.is og smella þar á Bláalónshlekkinn hægra megin.
Íþróttir | 30.5.2008 | 19:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er mikilvægt að við hjólreiðafólk látum í okkur heyra og förum á http://12og.reykjavik.is/Overview.aspx og finnum þar mál 2070 og merkjum að við séum mjög hlynnt því með því að smella á grænu örina. Þetta væri langstærsta samgöngubót fyrir hjólreiðafólk í Reykjavík þannig að endilega verum samstíga og tökum þátt í tillögunni. Hér má sjá tillöguna: Lýsing Mál 2070 | ||
Nú er verið að leggja forgangsakrein á Miklubraut milli Grensásvegar og Kringlumýrarbrautar. Ég skora á Reykjavíkurborg að leggja aðgreinda hjólreiðabraut samhliða þessum framkvæmdum þar sem breyta þarf gatnamótum á minnst tveimur gatnamótum. Það er aðeins tvíverknaður að ætla að leggja hina löngu tímabæru hjólreiðabraut einhverntíma seinna. Hér er tækifæri fyrir Reykjavikurborg til að sýna viljan í verki og bæta aðstöðu hjólreiðafólks með augljósum hætti. Ég óska eftir að þessari beiðni verði svarað með tölvupósti áður en framkvæmdum likur við forgangsakreinina. "
|
Íþróttir | 29.5.2008 | 14:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þá er það komið á hreint að rétt tæplega 5000 manns notuðu reiðhjól til að ferðast til og frá vinnu á einhverjum tímapunkti í hinu frábæra verkefni hjólað í vinnuna.
Það er ekki undarlegt að maður spyrji sig að ef kílómetrafjöldinn sem farið var 410.398 km hversu mikill hefði hann verið hefðu verið hjólastígar meðfram stofnæðum og götum í borginni.
Ég er 3 km styttra að fara úr grafarholti niður bæ eftir miklubraut en eftir hjólastígakerfinu gegnum elliðárdal og fossvog. Hversu styttra er að fara vestur úr bæ uppí borgartún ef maður notar göturnar og hversu miklu fljótari væri maður að fara þessa leið ef maður væri ekki að hjóla á gangstéttum.
Ef hjólreiðamaður fer eftir gangstígum meðfram götum og þarf að stöðva við hver gatnamót og bíða þess að komast yfir eða allavega til þess að athuga hvort öruggt sé að fara yfir. En þá heldur hann að jafnaði ekki hraða til þess að nýta sér reiðhjólið.
En á reiðhjólastíg meðfram stofnbrautum og götum þar sem hjólreiðamaðurinn þyrfti einungis að fylgja þeim reglum sem götuljós og biðskyldur krefjast (sjá mynd) þá væri miklu minna um stopp og yfirferðin væri meiri og þar með væri reiðhjólið samkeppnishæfari kostur í samgöngum í Reykjavík.
En að lokum fleiri skemmtileg tölfræði úr verkefninu.
431 fyrirtæki tók þátt og liðin voru 1017
Þátttakendur voru 7000 og 69% af þeim hjóluðu eða um 5000
Hjólaðir voru 410.398 km sem eru 306 hringir kringum landið
um 45.000 lítrar af eldsneyti spöruðust og innflutningur á jarðefnaeldsneyti dróst saman um 375 tonn.
og 80 tonn af útblæstri fóru ekki útí loftið.
Það má segja að þetta sé stórsigur fyrir hjólreiðar á íslandi og vonandi verður þessu fylgt eftir með áframhaldandi notkun á reiðhjólinu í sumar og vonandi vetur.
Sniðugt er fyrir alla þessa hjólakappa að fylgja eftir þessum góða árangri með því að taka þátt í Bláalónsþraut hjólreiðafélags Reykjavíkur þann 8. júní næstkomandi. sjá heimasíðu þrautarinnar
http://www.hfr.is/blaa/upplysingar.asp?m=5
Íþróttir | 28.5.2008 | 19:34 (breytt kl. 19:37) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sem Akureyringur að upplagi er ég einstaklega ánægður með að sjá það að minn gamli heimabær ætlar að verða fyrstur til að setja upp almennilega samgönguáætlun fyrir hjólreiðamenn og reyna að gera hjólreiðar að valkost sem samgöngumáta.
Verkfræðistofan mannvit hefur undanfarið ár verið að vinna fyrir þá tillögur sem þeir hafa skilað til bæjarins og eru þær þar til umfjöllunar og er ekki lengi að vænta þar til hægt verður að fá að sjá hvernig bærinn hyggist bera sig að.
Ég hafði samband við Mannvit og óskaði eftir að fá hugmyndirnar sendar en fékk þau svör að ekki væri hægt að senda mér þær þar sem þær væru enn til umfjöllunar hjá bænum.
Til hamingju Akureyrarbær með þetta frábæra framtak og vonandi að það verði öðrum sveitafélögum til fyrirmyndar.
Íþróttir | 27.5.2008 | 12:42 (breytt kl. 12:45) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég var ótrúlega hrifinn af því að sjá nýtt "slógan" Fjallahjólaklúbbsins á glænýrri vefsíðu þeirra "Fyrir alla sem nota reiðhjól sem samgöngutæki". Þetta er einmitt það sem vantaði í vefflóruna á íslandi, að stefnan væri sett á hjólreiðar sem samgöngutæki.
Flestir hugsa um hjólreiðar sem sunnudagshreyfinguna eða smá helgarsport. Það er meira að segja til hugtak á ensku yfir fólk sem stundar svokallaðar helgarhjólreiðar, weekend warriors.
Ég var lengi vel svona "weekend warrior" og naut þess og kom reglulega stoltur heim yfir að hafa rennt nokkra kílómetra á hjólinu mínu. En eftir því sem á leið fór ég að átta mig á að hjólreiðar eru ekki bara stundargaman eða líkamsrækt. Hjólreiðar eru góður möguleiki sem samgöngumáti.
Sjálfur bý ég í grafarholti sem er þónokkuð langt frá miðbæ Reykjavíkur eða um 13 km eftir stígakerfi borgarinnar og þónokkuð styttra ef ég hjóla eftir stofngötum eins og vesturlandsveg og miklubraut.
Ég uppgvötaði eins og margir hjólreiðar sem samgöngumáta í hinu frábæra verkefni borgarinnar, Hjólað í vinnuna og hef síðan nýtt mér reiðhjólið til samgangna þegar það hefur hentað. Ég á bíl og ferðast á honum ennþá svosem með fjölskylduna í Smáralind og flest sem ég þarf að fara með fjölskylduna.
Sjálfur fer ég þó flestra minna ferða á reiðhjóli yfir daginn, í bankann, í vinnu og eiginlega allar skreppur innan ákveðins radíus. Þetta sparar mér þónokkra fjármuni í hverjum mánuði og mér reiknaðist svo til um daginn að það kostaði mig ca. 400-500 kr að keyra niður í miðbæ úr grafarholti og heim. En þegar ég fer það á reiðhjóli þá kostar það mig í mesta lagi þónokkrar hitaeiningar.
Ég byrjaði að hjóla fyrir um 3 árum síðan að alvöru og hef síðan misst allmörg kíló og náð alveg undraverðum árangri í almennri heilsu. Ég er með stöðugan blóðþrýsting sem ég var ekki með, ég er með þrek vel yfir meðallagi fyrir 35 ára karlmann og ég fæ bestu mögulegu sálfræðiþjónustu þegar ég er á reiðhjólinu því frelsið og ánægjan af því að hjóla er alveg ótrúleg.
Þegar ég les erlendar greinar um hið svokallaða frelsi sem fæst í því að hjóla þá get ég svo sannarlega tekið undir það og vil hvetja flesta til að hjóla sem mest.
Á næstunni ætla ég að birta pistla á blogginu mínu um mismunandi gerðir reiðhjóla og ábendingar við val á hjóli auk þess sem ég ætla að rita nokkra pistla um hvernig maður á að bera sig að við að hjóla á götum borgarinnar.
Að lokum við ég fara aftur að upphafi greinarinnar og hvetja fólk til að lesa og fylgjast með nýrri og glæsilegri heimasíðu fjallahjólaklúbbsins www.ifhk.is.
Þar undir er einnig að finna skemmtilega umræðusíðu þar sem hægt er að bera fram spurningar um hjólreiðar og þær sem samgöngumáta og ég efast ekki um að þar munu sérfræðingar klúbbsins leggja sig fram um að veita sem best svör við hverju sem þú villt vita.
Íþróttir | 26.5.2008 | 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hérna eru nokkrar hugmyndir sem hægt væri að framkvæma í miðborg reykjavíkur til þess að auka hag almenningssamgangna, hjólreiða og fá fólk til að ganga meira.
Allar eiga þessar hugmyndir það sameiginlegt að draga úr mengun, einfalda gatnakerfið,draga úr bílastæðaþörf og svo yrði náttúrulega hljóðlátt og yndislegt að vera í miðborginni.
.
Takmarka akstur stærri bíla inní miðborgina eins og stórra jeppa.
Setja tollhlið inní miðborgarsvæðið líkt og gert hefur verið í london
Bjóða uppá betri aðstæður fyrir reiðhjól í strætó eins og hjólagrind framan á vagninn líkt og gert er sumsstaðar í USA.
Gera almennilega aðstöðu fyrir reiðhjól í miðbænum þar sem fólk getur geymt hjólin sín í skjóli og jafnvel læst inni. Hægt væri að geyma allnokkur reiðhjól í hverju bílastæði.
Hafa hjólaleigu eða ókeypis hjól við strætisvagnastöðvar í miðborginni þar sem fólk getur tekið hjól á einni stöð og skilað á næstu.
Merkja gatnakerfið í miðborginni þannig að bílar og reiðhjól samnýti það og setja 15 - 30 km hámarkshraða á þeim götum sem við á.
Takmarka stöðumæla þannig að einungis sé hægt að kaupa 1 klst í stöðumæli í einu.
Það þarf náttúrulega ekki að framkvæma þetta allt saman eða allt í einu. Aðaltilgangurinn er að stuðla að hreinna lofti, heilsusamlegri samgöngum og að öryggi annarra en bíla í umferðinni.
Vandamálið í Reykjavík og á Íslandi er að öryggi ökumanna eru alltaf í fyrirrúmi. Fyrst er teiknað hvar bíllinn á að komast, svo er gert ráð fyrir gangandi vegfarendum og svo að lokum er ekkert hugsað um hjólreiðamanninn.
Vandamálið er að hjólreiðafólk notast ekki við hjól bara sér til heilsusamlegrar hreyfingar heldur til samgangna og á meðan það er ekki pláss fyrir okkur á götunum þurfum við að notast við gangstéttar. Að hjóla á gangstétt er tímafrekt vegna allra gatnamóta sem fara þarf yfir og tímafrekt því ekki má stefna öryggi gangandi vegfarenda í hættu með hraða á göngustígum.
Núna er kominn tími til að hjólið fái sinn séss í umferðinni og það er enginn betri staður til að byrja á heldur en að fegra og hreinsa miðborgina með bættum hjólreiðasamgöngum.
Og ég er nokkuð viss um að með góðri aðstöðu fyrir hjólreiðafólk í miðbænum myndi fjölga á kaffihúsum og betri stemming skapast í miðborginni.
Íþróttir | 26.5.2008 | 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)