Hjólablogg að verða heitt

Það er ekki á hverjum degi sem maður sér bloggað um hjólreiðar eða allavega sá.

Fyrir um ári síðan var fjallað um blogg í dægurmálaútvarpinu á Rás 2 ef ég man rétt og þar var maður að útskýra hvað það væri gaman hvað blogg væri sterkt sem miðill og hvað þetta hleypti fólki af stað í að skrifa um hluti sem kannski væri ekki vettvangur fyrir annarsstaðar.

Það sem var samt skemmtilegast við þessa umræðu var þegar viðmælandinn hafði að orði að fólk gæti bloggað um hvað sem er, það væri t.d. einn sem skrifaði eingöngu um hjólreiðar og svo hló hann lítillega til að undirstrika hversu langt væri hægt að ganga í blogg skrifum ;)

Þar sem ég var nú á þeim tíma með eina bloggið sem eingöngu fjallar um hjólreiðar þá tók ég þetta til mín og var bara nokk ánægður með.

En í dag er ég ekki svo viss um að hjólreiðar af öllu yrði dregið út sem eitthvað "séráhugamál" sem einhver tæki sérstaklega eftir að bloggað væri um.

Það er nefnilega þannig í dag að mörg góð blogg sem fjalla að miklu leiti um hjólreiðar eða þá að bloggarar gefi hjólreiðum meiri gaum í skrifum sínum en áður.

Núna var ég t.d. að lesa bloggið hans Gísla Marteins http://eyjan.is/goto/gislimarteinn/ sem er orðið alveg eðal hjólreðablogg ef skoðaðar eru efstu færslurnar sérstaklega.... Mæli bæði með því að fólk lesi það og sérstaklega að það horfi á hans hluta af Silfri Egils... þetta hefur ekkert með pólitík að gera heldur eingöngu með frábæra borgarsýn og fær Gísli fjöður í hattinn fyrir það.

Svo skrifaði náttúrulega nýji forsprakki Framsóknar í Reykjavík Einar Skúlason http://www.pressan.is/pressupennar/EinarSkulason Grein í byrjun febrúar undii fyrirsögninni Hjólaborgin Reykjavík.

Hann skrifaði meðal annars í sinni færslu
"Það eru allra hagsmunir að nýta hjólin enn meira sem samgöngutæki dags daglega og sérstaklega þeirra sem hjóla, það hefur jákvæð áhrif bæði á heilsu þeirra og budduna. "

Svo  eru fleiri, náttúrulega ef rennt  er yfir bloggvina listann minn og smellt á þá sem duglegir eru að skrifa við færslurnar mínar má finna marga eðalhjólabloggara.

En þróunin er á réttri leið og ég fagna öllum góðum skrifum um Hjólreiðar.... Til hamingju Ísland


Hvar eiga hjólreiðamenn að vera ?

Eiga þeir að hjóla á götunum ?

Eiga þeira að vera á gangstéttum ?

Eiga þeir að vera á Útivstarstígum ?

eða vantar sérstaka hjólreiðastga ?

Maður spyr sig... á götunni kvarta bílar yfir að hjólreiðamenn séu of hægir...

á gangstéttum hvarta gangandi vegfarandur yfir því að hjólreiðamenn séu of hraðir.

Á útivistastígum eru annarskonar vandamál eins og fólk með hunda strendga í bandi þvert yfir stígana.

Eiga hjolreiðamenn eitthvað athvarf í umferðinni á Íslandi ?


Akureyrarsíki

Núna er ég ekki alveg að fatta...

Er virkilega fylgni með síki á Akureyri ennþá... þeas þessu sem á að ná uppí miðbæ.

Er ekki forgangur að eitthvað af götunum hérna á Akureyri fari í lag og fólk geti hjólað á einhverju öðru en fjallahjólum án þess að það fari dekk eða gjörð.

Í fyrrasumar skemmdi ég allavega þrjár slöngur og 1 dekk við að hjóla á götuhjóli með hrútastýri á götum bæjarins... Það væri ágætt að kröfurnar og forgangurinn væri meiri fyrir samgöngur og minni fyrir einhverja skrúðsýningu fyrir túrista... plús að bæjarmynd Akureyrar er svo falleg að maður spyr sig, af hverju að laga það sem ekki er brotið.

Akureyrarbær... gefið nú okkur Akureyringum almennilega hjólastíga, framkvæðið hjólaáætlunina og hafið göturnar í lagi svo við sem hjólum á götunni séum ekki með fjallabrunstilfinningu við a hjóla eftir götum bæjarins.

 


Hjólamyndin á forsíðu Arionbanka

arionbanki 

Þá er Arionbanki búin að sýna sig fremstan meðal banka á Íslandi með því að vera  fyrstur að koma með almennilega mynd á forsíðuna hjá sér.

Hjólanördinn í mér hefur alltaf jafn gaman að því að því þegar hjólreiðum er sýndur áhugi á Íslandi. Þegar ég opnaði þetta hjólablogg mitt fyrir rúmum 2 árum  var ekki að finna neina umfjöllun um hjólreiðar eða svo mikið sem mynd af hjólreiðamanni á áberandi stöðum eða í fjölmiðlum. Og ef það var að eitthvað sjáanlegt  þá var það undantekningarlaust frá einhverjum af meðlimum Landssamtaka hjólreiðamanna www.lhm.is.

Þetta er sem betur fer breytt og núna eru stjórnmálamenn farnir að tala um hjólreiðar sem samgöngumáta, fréttamenn farnir að fjalla um hjólreiðar á bloggum sínum og fyrirtæki farin að nota hjólreiðar í auglýsingum sínum. Þetta hefði allt verið óhugsandi fyrir 2 - 3 árum.

Ef þetta er afleiðing kreppunnar þá verð ég að segja að hún er ekki alslæm.


Heppnir eru Reykvíkingar - hjólreiðar á stefnuskrá frambjóðenda

Í Reykjavík er að komin "ný" hugmyndafræði frambjóðenda til borgarstjórnarpólitíkarinnar. Reyndar hefur þessi hugmyndafræði verið vakandi um þónokkurn tíma hjá sérstaklega 2 frambjóðendum

Ég hreinlega verð að lýsa ánægju minni með að hjólreiðar, hjólreiðamenning, grænar samgöngur og minna skutl skuli vera komið uppá pallborðið í prófkjörsframboðum.

Fyrstur kom Gísli Marteinn nýútskrifaður frá Edinborg og er duglegur að bjóða grænni borg og gott hjólreiðakerfi fyrir okkur hjólreiðamenn. Einnig  er duglegur að leggja áherslu á græna borgarsýn sína og það sem ég hef séð  til hans hingað til lítur bara skrambi vel út.

Í dag opnar maður ekki fjölmiðil án þess að sjá Dofra Hermannsson fjalla svipaða hluti nema hann tekur kannski þann vínkil á þetta sem hugsa oft og er ég þó ekki samfylkingarmaður né nokkkuð annað. Hann leggur mikið uppúr því að fólk geti notað hjólreiðar sem samgöngumáta og leggur einnig uppúr því að fólk hætti að keyra börnin sín allra sinna ferða.

Ég hef skrifað nokkrar greinar um þetta hérna á blogginu að hjólreiðar og sjálfstæðar samgöngur auki sjálfstraust og sjálfsvirðingu barna auk þess að hverja til meiri hreyfingar. Ég held að allir ættu að athuga heimasíðu Dofra sem er www.dofrihermannsson.is og athuga hvað hann býður uppá.

Umfjöllun um skutl á börnum skrifaði ég hér fyrir þónokkru : http://vilberg.blog.is/blog/vilberg/entry/683917

og svo færslan mín um af hverju ekki hjólað í skólann vikan.... http://vilberg.blog.is/blog/vilberg/entry/549261 sem fjallar m.a. um að það á að leyfa börnum að hjóla í skólann til að byggja þau upp andlega

 


Hjólreiðakappinn Matt Damon

mattafter12Leikarinn Matt Damon hækkaði alveg um flokk hjá mér þegar ég las nýjasta tölublaðið af Cycling. Þar sá ég að hann stundar hjólreiðar af kappi og tók meðal annars þátt ásamt bróðir sínum í 110 km hjólreiðakeppni í Höfðaborg í Suður Afríku í mars fyrir um ári.

Það var ekki allt kosið fyrir þá bræður sem kepptu á svokölluðum Tendem reiðhjólum þar sem 2 hjóla saman á hjóli. Vindhraði fór upp í allt að 27 metra á sekúndu og hjólið bilaði nokkrum sinnum. Þeim tókst samt að klára mótið og komust í mark rétt undir þeim 7 klukkustundum sem var hámarkstími sem keppendur höfðu til að klára.

Matt Damon virtist samt árangur með dagsverkið og eins og allir hjólreiðamenn þekkja þá leið honum stórkostlega að keppninni lokinni.

Þetta er samt ekki í fyrsta skipti sem ég heyri af Matt Damon og hjólreiðum því til stóð að hann léki sjálfann meistarann Lance Armstron árið 2004 eftir að sá síðarnefndi hafi fengið krabbamein, jafnað sig á því og komið aftur og sigrað Tour de France. Því miður varð ekkert af þeirri mynd.


Hjólreiðabærinn Akureyri... Fyrstir á Íslandi.. eða...

hjolabraut.jpg

 

Nei.... það klikkaði.

 Æji hvað það er sorglegt.... Reykjavík tókst að vera á undan með opinbera hjólreiðaáætlun.. Samt átti Akureyri hana til fyrir um 2 árum síðan og hefðu getað framkvæmt hana með litlum tilkostnaði. Akureyri ER hjólabær..... allir eiga hjól.. vegalengdir eru stuttar og allt er til staðar nema góðir hjólastígar.... Því átti að kippa í lag með áætlun sem Mannvit vann fyrir Akureyrarbæ og hefði gert hann að grænasta bæ/borg Íslands... En eitthvað klikkaði

 Svo er Reykjavík komin með þessa fínu áætlun á undan AK. (sjá hér)

Vonandi að kosningarnar í vor á AK snúist um að koma einhverju af þessu í verk sem nú þegar er búið að vinna.

 Svo vil ég náttúrulega óska Reykvíkningum til hamingju með þetta frábæra skref í rétta átt í samgöngumálum sínum.

 


Hjólaðu eins og engill!!!

 bike_animation

Það eru til margar leiðir til að hjóla. Sumir hjóla alltaf í sama gírnum, sumir hjóla í léttum gír og aðrir í þungum. Ég hef oft fengið spurningar eins og brenni ég meira ef ég hjóla í þungum gír eða léttum og svo framvegis. Fólk er mikið að pæla í því að ná sem mestri brennslu á meðan það hjólar.

Gott og vel en að vera að eltast við brennslu og gera hjólreiðarnar erfiðari en þær þurfa að vera gerir þær bara leiðinlegar og dregur úr áhuga á hjólreiðum og fólk leggur síður í lengri ferðir þar sem það hefur ekki þol í þær.

Ef ég er spurður hvernig best er að hjóla svara ég alltaf. "láttu gírana vinna fyrir þig og hjólaðu alltaf á sama tempói" þegar ég tala um tempó þá er ég að meina að snúa petölunum að jafnaði alltaf jafn hratt. Það er gott viðmið að vera með rétt yfir heilann hring á sekúndu þegar maður hjólar.

En til þess að þessi leið virki þarf maður að vera á gírahjóli og kunna að nota gírana. Ég reyni alltaf að hjóla áreynslulaust og ef mér finnst ég vera að hafa of mikið fyrir þessu þá létti ég um gír og stundum þyngi ég það fer bara eftir aðstæðum.

 Það er oft þegar fólk hjólar að það rykkir alltaf niður löppinni sem stígur petalann hverju sinni og er að reyna að hvíla hana afganginn af hringnum. Það gefur ekki betri árangur né meira úthald í hjólaferð heldur er lykilatriðið að reyna að ná jöfnum og áreynslulausum takti sem maður heldur út hjólatúrinn.

Með þessarri leið heldur maður hjartslættinum niðri og verður þar með ekki móður og eykur þol og brennslu á alveg undraverðann hátt auk þess sem maður getur nánast hjólað endalaust og falltar ekki þreytuna fyrr en maður er kominn á áfangastað.

 


Hjólum í vinnuna en ekki í skólann ? af hverju!!!

Merkilegt nokk þá eru til skólar á Íslandi sem stefna að því að draga úr hjólreiðum barna og sumsstaðar að beiðni lögreglunnar.

Á meðan Hjólað í vinnuna sem er einhver mesti uppgangstími hjólreiða á hverju ári virðist sem þeim sem nota hjól til samgangna fjölgi stórlega í hvert skipti, hvort sem er á Akureyri eða Reykjavík eða bara hvar sem er því það er ekki þverfótandi fyrir hjólreiðafólki fyrstu vikurnar eftir Hjólað í vinnuna og svo fjölgar þeim alltaf sem taka allt sumarið á þetta og þessvegna allt árið.

Þessvegna finnst mér skelfileg hugsun um að verið sé að banna börnum sem í fjórða bekk og yngri að hjóla í skólann. Ekki nóg með að það sé skólinn sem hvetji til þessa heldur er það lögreglan eins og á Akureyri.

Eflaust eru þeir sem þessu ráða ekki vaxnir uppúr því að reiðhjól sé bara leiktæki heldur notanlegt til samgangna eins og flestar evrópuþjóðir hafa uppgvötað og nú seinast Norðmenn sem ætla sér helst að koma öllum á reiðhjól.

Börn eru ekki undanskilin því að þurfa að nota samgöngur því þau þurfa jú að komast til og frá skóla en einhvernvegin er aðaláhyggjuefnið að börnin grípi kannski til hjólsins í frímínútum eða lendi í einhverju á leiðinni til og frá skóla.

Þetta tel ég alveg ótrúlega grunnhyggna afstöðu því á meðan börnin hjóla þá eru föreldrarnir ekki að keyra börnin og þannig ekki að skapa öðrum börnum hættu með tveggja tonna málmhlúnkunum sínum.

Það hefur bæði sýnt sig og sannað að hjólreiðar auka athyglisgáfu, þroska og ábyrgðarkennd barna og á meðan skólar í bretlandi eru að hvetja börn til hjólreiða (og þar þurfa þau að hjóla á hjólareinum) erum við Íslendingar að takmarka þessa notkun á meðan hér má nota gangstíga og útivistarstíga til að hjóla á ?

Mig langar að hvetja skóla og lögregluyfirvöld að kynna sér kosti og galla áður en svona stórar ákvarðanir eru teknar og ætla að leyfa mér að birta bréf sem ég fékk frá vini mínum sem á krakka í Lundarskóla á Akureyri.

Bréf frá Lundarskóla

Ágætu foreldrar og nemendur

Gleðilegt sumar og bestu þakkir fyrir veturinn

Á skólalóðinni er alltaf mikið líf og fjör. Með sumarkomunni breytist yfirbragðið þar nokkuð og ýmiss konar hjólatæki og búnaður verður áberandi. Notkun hjólatækja fylgir ávallt nokkur áhætta sem hægt er að minnka með tilheyrandi hlífðarbúnaði. Af þessu tilefni er rétt að minna á eftirfarandi kafla í reglum skólans. Það er von okkar í skólanum að allir virði reglurnar og sýni tillitssemi.

Nemendum í  1.– 4. bekk er ekki heimilt að koma með reiðhjól, hjólabretti, hjólaskauta, hjólaskó, hlaupahjól og línuskauta í skólann.
Notkun hjólabretta, hjólaskauta, hjólaskóa, hlaupahjóla og línuskauta er óheimil á skólalóðinni frá kl. 8:00 til 16:00 nema á hjólabrettavellinum. Þeir sem nota slíka hluti skulu vera með hlífðarhjálm og viðeigandi hlífðarbúnað. Hjólabretti, hjólaskautar, hjólaskór, hlaupahjól og línuskautar verða tekin af nemendum sem ekki fara að reglum skólans varðandi öryggisbúnað og aðeins afhent forráðamönnum viðkomandi.
Hjólreiðar nemenda eru ekki leyfðar á lóð skólans frá kl. 8:00 til 16:00, nema á leið í og úr skóla. Reiðhjól verða tekin af nemendum sem ekki virða bannið og geymd í skólanum þar til forráðamenn viðkomandi ná í þau.

Fyrri hlutinn Bréf frá Lögreglunni á Akureyri (seinni hlutinn fjallaði um hjálmanotkun að mestu)

Lögreglan Akureyri
Forvarnir – Fræðsla
Akureyri  vorið 2009
Ábending til foreldra og forráðamanna.

Reiðhjólið er farartæki.
Það er skemmtilegt að læra að hjóla, það lærir maður aðeins einu sinni.  Þótt líði mörg ár á milli þess sem maður hjólar gengur það, maður heldur jafnvægi.  Þetta er skemmtileg staðreynd.  Nær öll börn læra að hjóla, eiga hjól og nota það.  Þau eru fljót að ná góðu valdi á hjólinu og ótrúlegri leikni.  Undir tíu ára aldri eru þau þó að jafnaði ekki fær um að meta allar aðstæður í umferðinni og undir sjö ára aldrei eiga þau ekki að hjóla þar nema í fylgd fullorðins.  Nú eru börnin að taka hjólin út eftir veturinn og hafa það verið tilmæli til foreldra að börn í 1. til 4. bekk komi ekki í skólann á hjóli.  Þetta er gert af öryggisástæðum

Það sem mér finnst að þessu er að þetta á ekki að vera í valdi skóla eða lögreglu að búa til svona reglu heldur er þetta uppeldisatriði foreldra að meta stöðuna hverju sinni. Skólinn má ákveða hvað börnin gera á skólatíma ekki á leið til og frá hans. 

Börn eru misvel þjálfuð og mismikið kennt hvernig á að haga sér í umferð. En í stað þess að hafa hjólreiðafræðslu í skólum og kenna börnum hvernig á að haga sér þá er farin leiðin að banna börnum að hjóla og frekar valið að börnum sé keyrt til og frá skóla.

Máski skólakerfið og lögreglan ætti að kynna sér hjólafærniverkefni Landssamtaka Hjólreiðamanna áður en lengra er haldið í afturhaldi sem þessu www.lhm.is


Viltu hjóla í Nesbúð í góðum félagsskap á sumardaginn fyrsta

sumardagur1Sumardagurinn fyrsti er á næsta fimmtudag 23 apríl, Hjólreiðafélag Reykjavíkur ætlar að hafa veglega æfingu af því tilefni, hjóla í Nesbúð á Nesjavöllum.  Hjóla Mosfellsheiðina og Grafninginn og enda í hádegismat í Nesbúðinni.  Þeir sem vilja meira geta hjólað í bæinn tilbaka sömu leið, ég geri ráð fyrir því að Nesjavallaleiðin verði fær. Þau sem eru búinn að fá nóg láta sækja sig í Nesbúð. Svo er náttúrulega hægt að hjóla með upp á Mosfellsheiði og snúa þar við ef ekki er tími fyrir langan túr.

Við leggjum af stað frá Nauthólsvík kl 9:30, komum við í Húsasmiðjunni í Grafarholti, gerum ráð fyrir því að vera þar kl 10. Hópurinn hjólar rólega í einum hóp að Gljúfrasteini en þá verður skipt upp í hópa eftir hraða, allir eiga að finna hóp við sitt hæfi.

Í tilefni sumarkomu vil ég bjóða Hjólamenn, Hjólakonur, Þríþrautargarpa, IFHK og allt hjólreiðafólk yfirleitt með okkur í þennan túr í tilefni sumarkomu.  Það væri glæsileg byrjun á sumri ef stór hópur hjólreiðafólks legði á heiðina.


Meiri timi til að rækta fjölskylduna og auka þroska barna

untitled.jpgÉg er undanfarna daga búin að vera á flakki milli Reykjavíkur og Akureyrar vegna vinnu minnar. Á Akureyri verð ég alltaf jafn doffallinn af því að sjá fjölskyldur hjóla saman. Það er alltaf eitthvað við Akureyri og fjölskylduheildina sem ég nýt þess að horfa á. Í Fyrrasumar bloggaði ég um hvað margar fjölskyldur eru saman úti að hjóla saman og njóta þess að vera til alla daga vikunar.

Ég hef aldrei orðið jafn var við þetta í Reykjavík enda kannski búin að vera minni tími til þar sem vinna, ferðalög innanbæjar og fleira setja strik í reikninginn. En núna með hjöðnun á vinnumarkaði og meiri tími hjá fólki sem ætti að nota til að kenna börnunum sínum almennilega umferðarreglur á reiðhjólumhjólum, venja börn á sjálfsstæðann samgöngumáta og hjálpa þeim að þroskast með því að þurfa að taka ábyrgð á sjálfum sér á reiðhjóli.

Með þessu má auka heilsu barna, styrkja fjölskylduheildina og bara að njóta þess að vera til.

 

 


Dagskrá Fjallahjólaklúbbsins í Apríl

Var að fá sendan viðburðarlista Íslenska Fjallahjólaklúbbsins í apríl. Mæli eindregið með að fólk finni sér eitthvað við hæfi og kynni sér hvað þeir hafa að bjóða uppá, hvort sem um er að ræða viðgerðarnámskeið á hjólum eða hjólatúrar klúbbsins.

 

Viðburðir í aprílmánuði

2. apríl, fimmtudagur:  Kl. 12:00.  Bíllaus lífstíll afhendir samgönguráðherra bréf fyrir utan samgönguráðuneytið að Tryggvagötu fimmtudaginn 2. apríl kl. 12.00. Partur af átaki þeirra til að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að gera samgöngusamninga við starfsfólk.  Lesið fréttatilkynninguna alla á vef þeirra billaus.is.

2. apríl, fimmtudagur: Kaffihúsakvöld í klúbbhúsinu Brekkustíg 2 frá kl. 20, samhliða myndasýningu úr starfssemi klúbbsins frá síðasta ári og myndbandi um hjólaviðgerðir.

5. apríl: Sunnudagshjóltúrinn frá Víkingsheimilinu kl. 09:30. Vikulegir hjóltúrar á vegum hjolakonur.net frá Víkingsheimilinu kl 09:30 á sunnudagsmorgnum út apríl.  Miðað er við að vera 2 tíma á ferðinni og eru ákvarðanir teknar af hópnum sem mætir hverju sinni. Frá maí skiptum við yfir á racera, hraðinn aukinn og æfingatíminn breytist. Allar nánari upplýsingar gefur Guðný í síma 564 5964.

9. apríl, fimmtudagur: (Skírdagur) Viðgerðanámskeið 1. Grunnatriði tekin fyrir svo sem að gera við sprungið dekk, stilla bremsur og hvernig maður stillir hjólið sitt "rétt". Aðeins talað um gíra.
Undanfarin ár hafa verið haldin viðgerðanámskeið fyrir félagsmenn í apríl. Í fyrra voru haldin þrjú námskeið og þurftu margir frá að hverfa vegna mikillar aðsóknar. Ekki tókst að bæta við auka námskeiðum af tæknilegum ástæðum. Í ár verða námskeiðin með aðeins öðrum hætti, eða þannig að þeir sem sækja námskeiðin koma með sín hjól og gera við þau í leiðinni. Samtímis á efri hæðinni verður sýnt myndband um hjólaviðgerðir og smá fyrirlestur í lokin um almennt viðhald og góð ráð. Á það þarf ekki að skrá sig. Venjan er að margir reynsluboltar heimsæki klúbbhúsið þegar námskeið eru haldin og því er ekkert því til fyrirstöðu að líta við til að leita ráðlegginga eða bara til að spjalla og forvitnast.
Þeir sem sækja viðgerðanámskeið í apríl og koma með sín hjól verða að skrá sig fyrirfram hjá Garðari: \n gardar@litaland.is Þetta netfang er varið fyrir ruslrafpósti, þú þarft að hafa Javascript virkt til að skoða það  Garðar veitir líka upplýsingar og svarar spurningum varðandi námskeiðin.

12 apríl: Sunnudagshjóltúrinn frá Víkingsheimilinu kl. 9:30. Léttur hjólatúr um höfuðborgarsvæðið.

16 apríl: Viðgerðanámskeið 2. Stilling á bremsum og gírum ásamt almennu viðhaldi.

18 apríl: Hjólatúr með Hjólarækt Útivistar. Lagt af stað frá stóru brúnu húsunum neðst í Elliðaárdalnum kl. 10:00. Allir velkomnir.

18 apríl: Hjólaratleikur um höfuðborgarsvæðið fyrir alla fjölskylduna á Ferðafagnaði.

19 apríl: Sunnudagshjólatúrinn frá Víkingsheimilinu kl. 9:30. Léttur hjólatúr um höfuðborgarsvæðið.

23 apríl: Viðgerðanámskeið 3. Almennt námskeið um allt í sambandi við hjólið með áherslu á drifbúnað, legur og teina.

24 apríl: Dagur umhverfisins. Dagskrá í Perlunni.

26 apríl: Sunnudagshjólatúrinn frá Víkingsheimilinu kl. 9:30. Léttur hjólatúr um höfuðborgarsvæðið.

30 apríl: Vorfögnuður ÍFHK í klúbbhúsinu ! ! !
Dagskráin er aðgengileg á heimasíðu klúbbsins: www.fjallahjolaklubburinn.is Þar má sjá breytingar á dagskrá ef einhverjar verða því stundum ákveðum við viðburði með stuttum fyrirvara.


Innanbankaþjófar í liði með hjólaþjófum

Það er merkilegt að á Íslandi er hjólreiðaþjófnaður ekki glæpur, Ég leitaði fyrir nokkkrum vikum að dómi í máli þeirra sem hafa stolið reiðhjólum og fann engan ?.

 Eini dómurinn sem ég fann var maður sem var tekinn fullur á hjóli og fékk dóm fyrir þjófnaðinn aukalega við að hjóla fullur.

Ég skil ekki af hverju það er hægt að dæma fólk fyrir að stela sultukrukku, ilmvatni eða kjúkling í hattinum hjá sér á meðan hjólreiðaþjófnaður er enskis virði.

Í fyrrasumar var stolið 500.000 kr hjóli fyrir utan kaffihús í Mosfellsbæ og gæinn fékk það jú bætt úr tryggingum en lögreglan rannsakaði þetta enganvegin. Ef ég hefði rænt 5 þúsund kalli úr söluturn eða álíka hefði ég verið hundeldtur og málið leyst.

Kannski er með hjólreiðaþjófnað eins og bankamannaþjófnað, þetta er bara ekki í vitund okkar Íslendinga að það sé eitthvað að þessu ?


mbl.is Eldri borgari stórtækur hjólaþjófur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindkæling á Reiðhjóli eða í Skokki

vindhraði 

Núna er svo að frost og kuldi hefur sótt að okkur útivistarfólki undanfarnar vikur og óneitanlega finnum við hjólreiðamenn svolítið mikið fyrir þessarri auka kælingu.

Málið er nefnilega það að þegar við hjólum í logni þá búum við til vind. Ef vindhraði er 0 og við hjólum á 10 km hraða þá erum við að fá 10 km hraða af vind framan í okkur. Það sama gildir að ef við hjólum í mótvind á 10 km hraða og fáum 10 km af vind framan í okkur þá fáum við 20 km af vind á okkur. Góðu fréttirnar eru samt þær að við getum líka hjólað af okkur vind, sem dæmi að ef við náum að hjóla í meðvind sem er 10 km á 10 km hraða þá erum við búin að núlla vindinn og því engin vindkæling í gangi.

En ef við hjólum á 20 km hraða í 10 km meðvind þá erum við að skapa 10 km hraða af vind.

Þetta hefur allt áhrif á hitastigið sem við fáum á okkur og ég útbjó töflu byggða á grein um vindkælingu á veðurstofunni og hafði samband við Trausta Jónssón veðurfræðing til að vera með allar staðreyndir á hreinu og þakka ég honum veitt svör.

Tökum tvö dæmi:
Dæmi 1: Við hjólum í 5 stiga hita og logni á 50 km hraða niður brekku sem dæmi að þá erum við farin að fá -1 gráðu af kulda á okkur
Dæmi 2: Það eru -10 gráður eins og var á Akureyri í dag og við hjólum á móti 10 metrum af vindi á 14 km hraða þá erum við að fá á okkur 14 metra af mótvind sem er 50 km á klst mótvindur og hitastigið hjá okkur er þá -22 gráður.

Þetta getur haft áhrif á getu okkar og því mikilvægt að klæða vel af sér vindinn með því að vera í vindheldum fötum umfram allt.

Hægt er að reikna sig fram og til baka í töflunni sem ég útbjó með greininni með því að leggja saman hraðan sem við hjólum á við hraðan sem vindurinn er úti ef reikna á hjólreiðar í mótvind, svo notum við frádrátt ef við erum í meðvind en erfiðara er að reikna þegar aðrar gráður eru á vindinum en þetta er ágætt til viðmiðunar.

 


Beth Mason, BikeFit sérfræðingur á Íslandi 10-13. mars

Hjólamenn í samstarfi við Hjólreiðafélag Reykjavíkur og Hjólreiðanefnd ÍSÍ standa fyrir komu Beth Mason til Íslands 10. til 13. mars næstkomandi. Beth er sérfræðingur á sviði uppsetningar á hjólum (bike fit) og mun hún veita íslensku hjólreiðafólki ráðgjöf þá daga sem hún dvelur hér á landi.

Beth er löggiltur sjúkraþjálfari og klínískur sérfræðingur í bæklunarlækningum og hefur yfir 12 ára starfsreynslu á þeim vettvangi. Hún hefur jafnframt lokið námskeiði í framhalds hjólauppsetningum (advanced bike fit) frá SICI (Serotta International Cycling Institute, http://www.serottacyclinginstitute.com/), er starfandi hjólreiðaþjálfari með leyfi frá Bandarísku hjólreiðasamtökunum (USA Cycling) og er Category 1 keppandi í götuhjólreiðum og cyclo-cross í Bandaríkjunum. Jafnframt leggur Beth stund á doktorsnám í íþróttalækningum.

Meðan á dvöl sinni stendur á Íslandi mun Beth veita eftirfarandi þjónustu:

Basic Bike Fit
Tilvalið fyrir byrjendur eða áhugahjólreiðafólk sem vill koma í veg fyrir meiðsli. Farið verður yfir meiðslasögu/álagseinkenni og hnakkur, stýri og bremsur stilltar. Tímalengd: Um 1 klst. Þáttökugjald: 13.500 kr.


Advanced Bike Fit
Fyrir þá sem leita að því að fullkomna stöðu sína og þægindi á hjólinu. Farið verður nákvæmlega yfir sögu viðkomandi, liðleikamat gert og statísk og dýnamísk staða á hjólinu tekin. Dýnamísk greining á hjólreiðastöðunni verður gerð með hinum háþróaða Retul uppsetningarbúnaði (http://www.retul.com/) sem er í fremstu röð í heiminum í dag. Tímalengd: Um 2 til 2 ½ kls. Þáttökugjald: 30.000 kr.

Allir sem munu nýta sér þjónustu Beth verða jafnframt skannaðir fyrir eSoles (http://www.esoles.com/) sem er leiðandi fyrirtæki á sviði skóinnleggja. Er þá síðar hægt að taka ákvörðun um pöntun á innleggi.

Takmarkað framboð verður á tímum hjá Beth.

Þeir sem hafa í hyggju að nýta sér þjónustu hennar vinsamlegast skráið sig með því að senda tölvupóst á sigurgeir@tono.is fyrir 1. mars. Greiða verður 10.000 kr. staðfestingargjald (kt. 580105-0840, reikningur nr. 0101-26-705815) sem mun renna beint upp í fullnaðarborgun á þáttökugjaldi . Skráning án borgunar staðfestingargjalds verður ekki tekin gild. Vinsamlegast tilgreinið einnig hvaða þjónustu þið hafið í hyggju að notfæra ykkur og óskir um dagsetningu, ef einhverjar.

Beth verður með aðstöðu í Markinu, Ármúla 40, á meðan á dvöl hennar stendur.

Nánari upplýsingar: http://www.bethbikes.com/

Ekki keyra í dag..... að beiðni Reykjavíkurborgar

mengun
Loftmengun verður líklega yfir heilsuverndarmörkum í dag. Er kalt veður, lítill raki, logn og þurrar götur helsta ástæða þess. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að bæði svifryk og köfnunarefnisdíoxíð gæti því farið yfir mörkin við helstu umferðargötur borgarinnar í dag.

 Í tilkynningunni segir að bílaumferðin sé meginorsök loftmengunar í Reykjavík og því er besta ráðið til að draga úr mengun að hvíla bílinn í dag. Svifryksmengun fer yfir heilsuverndarmörk ef hún er yfir 50 míkrógrömm á rúmmetra á sólarhring. Köfnunarefnisdíoxíð gæti einnig farið yfir klukkutíma heilsuverndarmörk í dag en mörkin eru 110 míkrógrömm á rúmmetra og skapast helst af útblæstri bifreiða.

Svo er fólk með viðkvæm öndunarfæri hvatt til að forðast helstu umferðargötur í dag.


Þrátt fyrr að svona staða er komin upp er ekkert gert til að bjóða fólki uppá aðra kosti.

  • Strætó fækkar ferðum
  • Akgreinum fyrir bíla er fjölgað en engir hjólastígar settir meðfram stofnbrautum.

Og svo á byggja þetta bílamannvirki við úlfarsfell/vesturlandsveg í von um að það verði 20.000 bílar sem þar fari um eftir að sundabraut verður tekin í gagnið "einhverntíman"

Þurfa menn ekki að fara að hugsa út fyrir bílaramman og hvetja til mengunarminni fararkosta.


Þegar bílafyrirtækin hanna fjallahjól

Núna þegar það er ekkert vit í að kaupa sér sportbíl á Íslandi þá er hægt að fá sér fjallahjól frá framleiðendum sport og eðalbíla. Ég prófaði að leita að hjólum frá Amerísku framleiðendunum en fann engin fjallahjól og japanir eru duglegri við keppnis og götuhjól.

audi
Audi

mercedes
Mercedes Benz

porsche1
Porche

ferrari
Ferrari

Svo er náttúrulega ekki hægt að sleppa F1 útgáfunni af Ferrari

1


Að búa til dauðagildru á Miklubraut

Í gær var ýmislegt sem taka átti fyrir á þingi. Fleira en bara áfengisfrumvarpið og eldflaugavarnarkerfið í austur evrópu.

seinasta mál á dagskrá átti að vera: 12. Umferðarlög (forgangsakreinar) 93. mál, lagafrumvarp
sjá nánar á http://www.althingi.is/altext/136/s/0100.html

Það var tvennt sem er hvað merkilegast við þetta frumvarp.

Annars vegar:    Við 2. mgr. 13. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Almenn umferð ökutækja um forgangsakreinar strætisvagna og leigubifreiða er óheimil.

Og hins vegar: Frumvarp þetta er liður í því að efla almenningssamgöngur. Ljóst er að á næstu árum þarf átak í eflingu almenningssamgangna og á vettvangi samgönguráðuneytisins er unnið að endurskoðun á umferðarlögum sem taka mun mið af því. Þetta skref verður vonandi til þess að fleiri forgangsakreinar í umferðinni líti dagsins ljós og að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur í fyllingu tímans.

forgangurFrábært mál. Banna öðrum bílum og mótorhjólum að nýta sér þessar akgreinar til að efla almenningssamgöngur og draga úr nauðsyn bílsins. Það er bara eitt sem er alslæmt við þetta frumvarp Steinunnar Valdísar, Karls Matt og Ólafar Nordal. Það er að það á að banna hjólreiðamönnum að vera á forgangsakgreinum. Í umferðarlögum er mælst til þess að reiðhjólafólk haldi sig lengst til hægri á götunni sem er jú gott og blessað til að draga ekki úr flæði hraðskreiðari ökutækja.

En hvar eiga hjólreiðamenn þá að vera. Ef við skoðum mynd með grein þá má þar sjá hvar öruggara er að vera og svo hversu fáránlegt það er ef við þurfum að vera milli ökutækja á götunni sem lengst til hægri(vinstra megin við strætó).

Þetta er hreinlega áskrift á slys, banaslys og til þess fallið að draga úr hjólreiðum eftir þessum leiðum.

Einhverjir eru eflaust að hugsa að hjólreiðamenn eigi að halda sig á gangstéttum og svo sé þessi fíni stígur í gegnum fossvoginn ef fólk þarf að komast í vesturátt.  En svo einfalt er það ekki því stígar eru ekki mokaðir nógu oft og tefja hjólreiðamanninn og svo skapar hjólreiðafólk hættu fyrir gangandi vegfarendur ef það er á einhverri hraðferð. Og varðandi að taka fossvogsleiðina þá er hún miklu lengri og jafn raunhæft að segja fólki sem er að fara á bíl úr grafarvogi og niður í bæ á að taka nýbílaveginn í stað miklubrautarinnar. Það færi eflaust jafn mikill tími í þetta aukalega og fyrir hjólreiðamanninn að fara fossvoginn frekar.

Ég vil því hvetja Tríóið sem stendur að baki þessu frumvarpi að endurskoða hug sinn og leyfa hjólreiðar á forgangsakreinum. Enda erum við hjólreiðamenn í stórsókn í notkun reiðhjóls sem samgöngumáta og vantar aðstöðu til að komast ferða okkar.

Ef Tríóið sér sér ekki fært að endurskoða þá geri ég kröfu um að gerðir verði sérstakir hjólreiðastígar meðfram stofnbrautum til að tryggja öryggi hjólreiðamanna, gangandi vegfarenda og til að gera hjólreiðar að sambærilegum kost og bílum og strætó.

 


Dregur úr bílaumferð í Reykjavík

af vef Reykjavíkurborgar:
Dregið hefur úr umferð í Reykjavík um 6% að meðaltali milli mánaðanna október 2007 til október 2008 og á sumum leiðum allt að 10%. Þetta kemur fram í skýrslu um umferðarmagn og flæði í Reykjavík sem kynnt var fyrir umhverfis- og samgönguráði í vikunni.

Talningin var meðal annars gerð með umferðargreinum sem mæla umferðarmagn, hraða og fjölda bifreiða. Líklegt er að margir hafi endurskoðað ferðavenjur sínar í Reykjavík eftir að kreppan skall á í október. Sala á bifreiðum hefur einnig dregist saman.

Það er ekki ólíklegt að þessi þróun haldi áfram, og engin smá samdráttur búin að eiga sér stað þó. Það er ekki þverfótandi fyrir auglýsingum þar sem óskað er eftir reiðhjólum og hjólreiðabúðirnar segja sölu vera góða og svo eru blikkandi hjólaljós útum allt á morgnana.

Auðvitað er fólk farið að skoða aðra kosti en bílinn og farið að temja sér aðra kosti til samgangna. Núna er bara spurningin hvort borgin ætli að bregðst við þessu og bæta aðstöðu hjólreiðamanna. Góð byrjun væri að setja mokstur stíga í forgang og leggja drög að hjólreiðastígum meðfram stofnbrautum svo hægt sé að viðhalda þessarri þróun.

Það er alveg á hreinu að þeir sem flytja sig af bílum yfir á reiðhjól eru að spara sjálfum sér og ríkinu stórpening. Ætli það sé ekki gott í kreppunni að þurfa ekki að vera að spæna upp allar götur á sumrin vegna slits og þurfa ekki að ráðast í gerð mikilla bílamannvirkja.

Svo er það náttúrulega aðalmálið, það er að fólk sem hjólar er að fá andlega útrás og líður miklu betur heldur en fólk sem er að stressa sig í bílaumferðinni. Það geta langflestir skilgreint tímann sinn þannig að hjólið henti og því í raun engin afsökun til að fara ekki af stað. 

 


Svalasti og duglegasti maðurinn á vinnustaðnum ?

Hvað er það svalasta á vinnustöðum í dag?, núna þegar jakkafatadrengirnir eru hættir að láta sjá sig í kringlunni í armani og boss og allir alltí einu orðnir svo casual aftur?. Svalasta liðið er það sem mætir á hjóli í vinnuna, engin spurning......

Ég tók púlsinn á þessu og talaði við nokkra aðila um málið...  Og auðvitað var það ekki óhlutdrægt heldur spurði ég nokkra sem ég þekki sem ég veit að eiga bíla og fóru flestra sinna ferða á bílum um hvað þeim þætti um liðið sem kæmi á hjóli til vinnu.

Svörin voru nánast öll á sama hátt eða:

  • Ég vildi a ég væri svona dugleg að geta drifið mig af stað á hjóli á morgnana, hjólreiðagellur eru með svo fallegan rass og læri.
  • Einu sinni sagði ég alltaf að Gulli væru svo nýskur að hann hjólaði frekar en að keyra. Núna er farið að hvarfla að mér að gera það sama.
  • Alltaf þegar hjólað í vinnuna vikunni lýkur lofa ég mér að halda þessu áfram en einhvernvegin enda ég alltaf á bílnum á endanum, skil ekki af hverju, kannski af því bíllinn er svo auðveldur kostur.
  • Ég hef alltaf hjólað í vinnuna svona 3svar til 4sinnum í viku síðan ég tók þátt í hjólað í vinnuna fyrir 2 árum. Ég hef tekið eftir ótrúlegri aukningu hjólreiðamanna á morgnana og síðdegis og vona að borgarfulltrúar fari að taka eftir því líka.
  • Búandi á Akureyri þá er æðislegt að fara frá brekkunni og niður í vinnu á hjóli þegar það er autt og taka svo strætó heim með hjólið. Ókeypis strætó, og ferkst loft fyrir daginn, verður það betra.

Ég hef oft velt fyrir mér hvernig fólk sér hjólreiðar fyrir sér. Einu sinni var það þannig að ef einhver sást á hjóli eða að bíða eftir strætó þá hlaut hann að hafa misst bílprófið.

Svo er það að bara fátæklingar og sérvitrningar hjóli.

En undanfarin ár hafa þessi gildi breyst, fólk af öllum þjóðfélagsstigum og launastéttum er farið að hjóla að jafnaði og í mörgun fyrirtækjum er búið að setja upp sturtur og jafnvel hjólageymslur og þurrkrými fyrir hjólagalla.
Miðað við aukninguna í vetur er ekki spurning um að næsta sumar verður hjólreiðasumar af bestu gerð og það verður þrælspennandi keppni i næstu Bláalónsþraut sem er fjallahjólaþraut frá Hafnarfirði í Bláa Lónið. Því það er alveg hellingur að toppfólki farið að hjóla á fullu.

Þetta sýnir það bara að hjólreiðar væru mörgum sinnum vinsælli kostur á Íslandi ef einhverjum dytti nú í hug að búa almennilegar að aðstæðum fyrir hjólreiðamenn og konur.
Einhverjir eru jú að hugsa þegar þeir lesa þetta hvað stígar og stéttir séu nægar fyrir þetta fólk en samt er það jú þannig að það tekur hjólreiðamann 4 km lengra að komast úr grafarholti niður í miðbæ eftir hjólastígum en eftir götum á bíl.

Og hvor þarf að hafa meira fyrir því, bílstjórinn eða hjólreiðamaðurinn, hvor þarf á minni heilsugæslu að halda, hvor skemmir götur meira og hvor veldur alvarlegri slysum ?.

Er ekki kominn tími til að skoða hjólreiðar sem alvöru samgömngumáta og leggja frekar fé í það en gatnagerð fyrir bíla og mislæg gatnamót.

Ég get lofað því að ef peningunum fyrir mislæg gatnamót á kringlumýrarbraut og miklubraut væri varið í hjólreiðastíga með stofnbrautum og tengistíga við þá myndi bílaumferð dragast stórlega saman og viðhald á gatnakerfinu snarminnka.

Öll önnur vestræn ríki eru búnað reikna úr arðsemi hjólreiða ? England, Skotland, Danmörk, Noregur,´Svíþjóð, Belgíal, USA, Kanada og svo framveigis...... En ekki Ísland, ef ekki væri fyrir einstaklingsframtök og baráttu þeirra fyrir hjólreiðum á Íslandi þá myndi ekki heyrast púkk um þetta málefni


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband